Umsókn um lóð - Bakkabyggð 8

Málsnúmer 2006009

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar - 255. fundur - 10.06.2020

Með erindi dagsettu 4. júní 2020 óskar Ólafur Meyvant Jóakimsson eftir lóðinni að Bakkabyggð 8 í Ólafsfirði.
Þar sem gatnagerð við Bakkabyggð hefur verið frestað vísar nefndin afgreiðslu málsins til bæjarráðs.
Samþykkt með fjórum atkvæðum.
Helgi Jóhannsson greiðir atkvæði á móti og leggur fram svohljóðandi bókun: Sótt er um auglýsta lausa lóð og hefði ég viljað samþykkja umsóknina hér og nú.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 657. fundur - 23.06.2020

Á 255. fundi skipulags- og umhverfisnefndar samþykkti nefndin að vísa erindi Ólafs Meyvants Jóakimssonar, er varðar umsókn um lóð að Bakkabyggð 8 Ólafsfirði dags. 04.06.2020, til bæjarráðs þar sem framkvæmdum við gatnagerð í Bakkabyggð hefur verið frestað á þeim forsendum að lóðum sem úthlutað var á árunum 2018 og 2019 hafði verið skilað inn eða þær innkallaðar þar sem ákvæðum um úthlutun hafði ekki verið fylgt.

Lögð er fram umsögn deildarstjóra tæknideildar þar sem fram kemur að áætlaður kostnaður við að ljúka framkvæmdum í götunni nemur 40 mkr. að frátöldum kostnaði við gangstéttar- og grassvæði. Einnig kemur fram að kostnaður við að ljúka framkvæmdum við hluta götunnar, þ.e. út fyrir lóð nr. 8 er áætlaður 22.5 mkr. að frátöldum gangstéttum og grassvæðum. Þar af er kostnaður við jarðvinnu áætlaður 16 mkr. m.v. að gatan verði gerð byggingarhæf án bundins slitlags.

Bæjarráð samþykkir að úthluta lóðinni og kostnað kr. 16.000.000 vegna gatnagerðar fram yfir lóð 8 svo að hægt sé að byggja á lóðinni. Gatnagerð mun þó ekki hefjast fyrr en öll tilskilin leyfi liggja fyrir og ljóst er að umsækjandi um lóð að Bakkabyggð 8 muni hefja byggingarframkvæmdir.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og deildarstjóra tæknideildar að leggja fram tillögu að verkefnum á framkvæmdaáætlun ársins sem heppilegt væri að fresta til þess að mæta áætluðum kostnaði við gatnagerð.

Bæjarráð samþykkir einnig að fela tæknideild að taka út auglýsingu um lausar lóðir frá Bakkabyggð 10-18 og 7-11 og uppfæra kort sem sýna lausar lóðir á Siglufirði og í Ólafsfirði, á heimasíðu sveitarfélagsins.