Tillaga að umsögn um lagafrumvarp

Málsnúmer 2003054

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 646. fundur - 31.03.2020

Lagt fram erindi Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, dags. 20.03.2020 vegna umsagnar til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um frumvarp um breytingu á lögum nr. 75/2011, um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.
Vísað er til tilkynningar á Samráðsgátt stjórnvalda dags. 6. mars 2020, mál nr. 65/2020, þar sem frumvarp um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er sett fram til umsagnar.
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE, hafa farið yfir frumvarpsdrögin og leggja fram eftirfarandi umsögn:
"SSNE telur mjög jákvætt að frumvarpið felur í sér endurskilgreiningu á gildissviði laganna þannig að það nái til markmiða um að stuðla að jafnri dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun á vegum sveitarfélaga og einkaaðila. Samtökin eru einnig sammála því að mikilvægt er að sjóðurinn styðji við stefnu sem byggist á sjálfbærri þróun, jafnvægi og svæðisbundinni þróun eins og nærsamfélag á hverju markaðssvæði hefur ákveðið að stefna að, s.s. með gerð áfangastaðaáætlana.
SSNE gera athugasemd við það að ekki skuli vera litið til ferðamannaleiða sem akvegar. Á Norðurlandi eru nú þegar tvær skilgreindar ferðamannaleiðir, annars vegar Norðurstrandarleið og hins vegar Demantshringurinn. SSNE er einnig kunnugt um að Vestfirðir og Vesturland hafa nýverið tilkynnt um nýja leið á þeirra svæði. SSNE telur að skilgreina þurfi hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að leið teljist vera ferðamannaleið, hvort sem um ræðir ferðamannaleið sem nær yfir akveg eða ferðamannaleið sem er göngu-, reið- eða hjólaleið. Vekur SSNE athygli á því að hjólreiðar, ganga og útreiðar eru mjög vaxandi afþreying hér á landi sem brýnt er að hlúa að.
Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra áskilja sér rétt til að koma með frekari umsagnir á síðari stigum."

Bæjarráð tekur undir tillögu að umsögn SSNE til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um frumvarp um breytingar á lögum nr. 75/2011, um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.