Ráðning bæjarstjóra

Málsnúmer 2003022

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 182. fundur - 12.03.2020

Formaður bæjarráðs Helga Helgadóttir lagði fram eftirfarandi tillögu.
„Meirihluti D-lista og I-lista leggur til að Elías Pétursson verði ráðinn sem nýr bæjarstjóri Fjallabyggðar“.

Til máls tók Helgi Jóhannsson og leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd H - lista :
Hér leggur meirihluti Betri Fjallabyggðar og Sjálfstæðisflokksins fram ráðningarsamning nýs bæjarstjóra.
H-listinn vill óska væntanlegum bæjarstjóra til hamingju með starfið og vonast eftir góðu samstarfi við hann.
H-listinn gerir hins vegar athugasemdir við hvernig staðið hefur verið að ráðningunni. Þegar gerður var starfslokasamningur við fyrrverandi bæjarstjóra í lok nóvember s.l. upplýsti meirihlutinn að starfið yrði auglýst. Ekkert var að frétta svo vikum skipti og meirihlutinn taldi enga ástæðu til að upplýsa minnihlutann um stöðuna allan tímann. Oddvita H-listans var síðan gert viðvart þann 26. febrúar að búið væri að ráða bæjarstjóra, en trúnaður væri yfir ráðningunni. Ráðningin yrði tilkynnt formlega föstudaginn 28. febrúar. Það fór svo að fréttamiðlar voru á undan sveitarfélaginu Fjallabyggð að tilkynna um ráðninguna. Fram kom í tilkynningu frá sveitarfélaginu að nýr bæjarstjóri myndi hefja störf þann 9. mars og það stóðst, hann var mættur og búið að uppfæra m.a. heimasíðu sveitarfélagsins og fundagátt. Einnig situr hann 643. fund bæjarráðs þann 10. mars s.l. eins og kemur fram í þeirri fundagerð, sem bæjarstjóri.
H-listinn telur að ekki hafi verið farið eftir 47. gr. samþykktum Fjallabyggðar og 54. gr sveitarstjórnarlaga. Þar kemur skýrt fram að það er bæjarstjórn sem ræður bæjarstjóra og því telur H-listinn það ófært að fyrsti starfsdagur nýs bæjarstjóra sé þremur dögum áður er formleg ráðning, staðfest af bæjarstjórn, liggur fyrir.

H-listinn mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um ráðningasamning bæjarstjóra, Særún Hlín Laufeyjardóttir og Helgi Jóhannsson.

H - listi vill þakka fráfarandi bæjarstjóra Guðrúnu Sif Guðbrandsdóttur fyrir vel unnin störf í þann tíma sem hún hefur sinnt starfinu.

Til máls tóku Helga Helgadóttir, Elías Pétursson og Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir.

Meirihluti bæjarstjórnar vísar því á bug að hafa gefið út að auglýst yrði eftir bæjarstjóra. Haft var eftir forseta bæjarstjórnar á Eyjunni 29. nóvember 2019 að öllum líkindum yrði auglýst en að það hafi ekki verið tekin ákvörðun um það ennþá.
Á síðari stigum tók meirihlutinn ákvörðun um að auglýsa stöðuna ekki á þeim forsendum að staða bæjarstjóra er skv. sveitarstjórnarlögum trúnaðarstaða gagnvart meirihluta bæjarstjórnar.
Rétt er að Elías Pétursson mætti til vinnu 9. mars en hefur ekki formlega hafið störf sem bæjarstjóri fyrr en nú eftir þennan bæjarstjórnarfund þar sem settur bæjarstjóri, Guðrún Sif Guðbrandsdóttir lætur af störfum eftir þennan fund. Meirihlutinn undrast bókun minnihlutans og það að minnihlutinn hafi ekki gert sér grein fyrir því að raunveruleg færsla á valdi á sér stað á þessum bæjarstjórnarfundi.
Meirihluti bæjarstjórnar þakkar Guðrúnu Sif Guðbrandsdóttur fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins

Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með 5 atkvæðum. Helgi Jóhannsson og Særún Hlín Laufeyjardóttir sitja hjá við afgreiðsluna.

Bæjarstjórn samþykkir ráðningarsamninginn með 5 atkvæðum og felur forseta bæjarstjórnar að undirrita samninginn fyrir hönd Fjallabyggðar. Helgi Jóhannsson og Særún Hlín Laufeyjardóttir sitja hjá við afgreiðsluna.

Forseti bæjarstjórar lagði einnig fram tillögu um prófkúruumboð til bæjarstjóra. Tillagan samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.