Ályktun sem samþykkt var á sameiginlegum fundi Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla.

Málsnúmer 1912050

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 634. fundur - 07.01.2020

Lögð fram til kynningar ályktun frá sameiginlegum fundi Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda í leikskóla frá 27.12.2019 en þar segir:
Sameiginlegur fundur stjórna og skólamálanefnda Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla skorar á sveitarfélög að bæta til muna starfsaðstæður leikskólakennara, samræma starfskjör, fjölga undirbúningstímum og samræma starfs- og vinnutíma kennara þvert á skólastig. Raungera þarf þær breytingar í kjarasamningum og búa til betri ramma um faglegt starf í leikskólum.
Stærsta áskorun sveitarfélaganna er að fjölga leikskólakennurum. Það vantar um 1300 leikskólakennara til að uppfylla lög 87/2008 um menntun og ráðningu kennara sem kveður á um að 2/3 hlutar þeirra sem sinna menntun og uppeldi leikskólabarna eigi að hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.
Þann 1. janúar 2020 munu taka gildi lög sem meðal annars kveða á um leyfisbréf þvert á skólastig. Við þá breytingu verður raunveruleg hætta á að leikskólakennarar flytji sig yfir á önnur skólastig vegna ólíkra starfsaðstæðna og vinnutímafyrirkomulags. Ef sveitarfélögin hafa ekki raunverulegan áhuga á að jafna starfsaðstæður á milli skólastiga og sýna það ekki í verki við kjarasamningsborðið er leikskólastigið í alvarlegum vanda.