Áform fjármálaráðherra að skerða tekjur jöfnunarsjóðs og mat á áhrifum á einstök sveitarfélög

Málsnúmer 1903058

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 598. fundur - 26.03.2019

Lagt fram minnisblað Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 18.03.2019 er varðar áætlun um tekjutap vegna áforma um frystingu framlaga ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2020 og 2021.

Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að lög um tekjustofna sveitarfélaga kveða á um að framlög ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga reiknist annars vegar sem hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs og hins vegar af útsvarstofni sveitarfélaga. Ríkið fjármagnar alfarið útgjaldajöfnunarframlög og framlög vegna sameininga (reglugerð nr. 960/2010) og vegna jöfnunar fasteignaskattstekna (reglugerð nr. 80/2001). Ríkisframlag til málefna fatlaðs fólks er um 1,8 ma.kr. árið 2019 af heildarframlögum um 16,8, eða um 10%. Framlög vegna reksturs grunnskóla eru alfarið greidd af sveitarfélögunum (0,77% af útsvarsstofni) og stærsti hluti af framlögum til málefna fatlaðs fólks er fjármagnaður með sama hætti (0,99% af útsvarsstofni).

Samkvæmt fjárlögum er áætlað að framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2019 verði 20.567 m.kr. Nú hefur fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnt forsvarsmönnum sambandsins að framlag ríkissjóðs verði hið sama árin 2019 til 2021 og að þannig verði gengið frá í fjármálaáætlun 2020-2024 sem nú er í meðförum Alþingis. Árið 2022 er áformað að framlag ríkissjóðs verði reiknað samkvæmt gildandi lögum.

Áætlanir hag- og upplýsingasviðs benda til að tekjutap sveitarfélaga verði um 1.179 m.kr. árið 2020 og um 2.106 m.kr. árið 2021 eða samtals 3.285 m.kr.
Forsendur þessa útreiknings er að skatttekjur og útsvar hækki í takt við spár fjármála- og efnahagsráðuneytis um þróun þessa skatta. Niðurstöður útreikninga sambandsins og starfsmanna jöfnunarsjóðs eru svipaðar. Áætlað er að sambandið verði af tæpum 15 m.kr. árið 2020 vegna frystingar og röskum 30 m.kr. árið 2021. Áætlað tekjutap landshlutasamtakanna verður ívið meira.

Samkvæmt áætlun mun tekjutap sveitarfélaga á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra áberandi mest en minnst á höfuðborgarsvæðinu. Útgjaldajöfnunarframlög verða fyrst og fremst fyrir barðinu á frystingu ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt útreikningum lækka ríkisframlög til útgjaldajöfnunar og vegna fasteignaskatts til Fjallabyggðar um. 22,6 mkr. á árinu 2020 og 40,0 mkr. á árinu 2021. Útgjöld vegna málefna fatlaðra til þjónustusvæðis Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar mun samkvæmt útreikningum lækka um 1,9 mkr. á árinu 2020 og 3,7 mkr. á árinu 2021.

Bæjarráð lýsir andstöðu sinni við þessi áform og gagnrýnir að ríkisstjórnin hafi ekki haft samráð við sveitarfélögin.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 599. fundur - 02.04.2019

Lagt fram til kynningar áætlun um tekjur og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2019 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 610. fundur - 25.06.2019

Lagt fram til kynningar erindi Karls Björnssonar framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 20.06.2019 þar sem fram kemur að horfið hafi verið frá svokallaðri tímabundinni frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga árin 2020 og 2021. Í því felst hækkun framlaga um 279 millj. kr. árið 2020 og 1.404 millj. kr. árið 2021. Á móti vegur að með endurmati á tekjum ríkissjóðs lækkar hlutdeild jöfnunarsjóðs um samtals 1.488 millj. kr. á tímabilinu. Loks er gerð tillaga um 50 millj. kr. árlega lækkun frá árinu 2021 sem er ætluð til að draga almennt úr útgjaldavexti sviðsins en hefur ekki áhrif á framlög til jöfnunarsjóðsins. Í heildina litið eru því nettóáhrif því sem næst engin á tímabilinu í heild.“