Uppsagnir starfsfólks hjá Siglunesi ehf og Útgerðarfélaginu Nesinu ehf

Málsnúmer 1211076

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 279. fundur - 27.11.2012

Bæjarráð Fjallabyggðar harmar mjög að þurft hafi að grípa til uppsagna hjá fyrirtækjunum Siglunesi hf og Útgerðarfélaginu Nesinu ehf.
Áðurnefndar uppsagnir hafa mikil áhrif á svæðinu, verði þær að veruleika.
Tapist 35 störf í Fjallabyggð hefði það sömu áhrif fyrir atvinnusvæðið og að 3.500 störf töpuðust á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarfulltrúar í Fjallabyggð voru í hópi 133 sveitarstjórnarmanna sem vöruðu við áhrifum hækkunar veiðigjalda á samfélagið í umsögn við frumvarpið síðastliðið vor. Í þeirri umsögn var ítrekað að veiðigjöldin væri fyrst og fremst landsbyggðarskattur.
Útgerðir í Fjallabyggð þyrftu að greiða um 850 milljónir í veiðigjöld, samkvæmt úttekt Daða Más Kristóferssonar hjá HÍ og Stefáns Gunnlaugssonar hjá HA, sem fjölluðu um frumvarpið.
Ljóst var að slíkar upphæðir yrðu ekki teknar úr samfélaginu án afleiðinga.
Það er von bæjarráðs Fjallabyggðar að horfið verði frá þessum gríðarlega auknu álögum í formi landsbyggðarskatts sem veiðigjöldin eru, svo að koma megi í veg fyrir að störfum á svæðinu fækki til frambúðar.