77. fundur bæjarstjórnar Fjallabyggðar - Frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld

Málsnúmer 1204033

Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn Fjallabyggðar - 77. fundur - 11.04.2012

Samþykkt var með 9 atkvæðum að taka málið á dagskrá bæjarstjórnar.
Í tengslum við frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, hefur sveitarfélaginu borist tölvupóstur með ályktun, frá formanni byggðarráðs sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem forseti kynnti fundarmönnum.
Til máls tóku: Þorbjörn Sigurðsson, Ólafur H. Marteinsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Egill Rögnvaldsson, Ingvar Erlingsson, Helga Helgadóttir og Sigurður Valur Ásbjarnarson.

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur sent Fjallabyggð til umsagnar frumvörp til laga um veiðigjöld (heildarlög), 658. mál og 657. mál um stjórn fiskveiða (heildarlög).

Eftirfarandi bókun var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar miðvikudaginn 11. apríl 2012, með 8 atkvæðum.
Bjarkey Gunnarsdóttir sat hjá.

"Vegna fram kominna frumvarpa til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, krefst Bæjarstjórn Fjallabyggðar þess af Ríkisstjórn Íslands og Alþingi að áhrif fyrirhugaðra breytinga á stjórn fiskveiða og viðbótar skattlagningar útgerðarinnar verði reiknuð út að fullu af hlutlausum aðilum og niðurstöðurnar kynntar opinberlega áður en lengra er haldið.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að áhrif m.a. skattlagningar, tímalengd nýtingarleyfa, stækkunar potta, takmarkana á viðskiptum með aflamark, skattlagningu viðskipta með aflahlutdeild og annarra þeirra þátta sem áhrif geta haft á atvinnulíf í Fjallabyggð, Bæjarsjóð Fjallabyggðar og almenning í Fjallabyggð verði könnuð til hlítar og niðurstöðurnar kynntar opinberlega áður en lengra er haldið"

Ingvar Erlingsson
Egill Rögnvaldsson
Sólrún Júlíusdóttir
Guðmundur Gauti Sveinsson
Þorbjörn Sveinsson
Ólafur H. Marteinsson
S. Guðrún Hauksdóttir
Helga Helgadóttir

Bjarkey Gunnarsdóttir óskaði að bókað yrði:
"Sjávarútvegurinn er mikilvægasta atvinnugrein landsins og því nauðsynlegt að um stjórnkerfi greinarinnar ríki sem mest sátt meðal þjóðarinnar. Alþingi hefur nú til umfjöllunar tvö frumvörp varðandi stjórn fiskveiða sem ætluð eru til að leysa úr langvarandi ósætti sem staðið hefur um það mál áratugum saman. Það er mín skoðun að Alþingi þurfi að fá tíma og svigrúm til að vinna að þessum málum í trausti þess að heildarhagsmunir þjóðarinnar verði hafðir í fyrirrúmi og varast beri að hrapa að ályktunum sem torveldað geti þá vinnu."