Aðalheiður S. Eysteinsdóttir

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir listrænn stjórnandi Alþýðuhússins á Siglufirði, myndlistarmaður og Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2022.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir fæddist á Siglufirði 23. júní 1963 og bjó þar til 1986, þá fluttist hún til Akureyrar. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1989-93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að vera athafnasamur myndlistarmaður. Hún starfrækti Kompuna, gallerí í Listagilinu á Akureyri í 8 ár, tók virkan þátt í uppbyggingu "Listagilsins" á Akureyri og er einn af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri.

Aðalheiður hefur sett upp rúmlega 200 einkasýningar í 14 löndum og verk eftir hana má finna í einkasöfnum víða um heim. Hún hefur sýnt á öllum stærstu listasöfnum landsins og er félagi í SÍM og Myndhöggvarafélaginu. Einnig hefur hún fengist við kennslu á öllum skólastigum undanfarin 25 ár.

Árið 2000 var hún útnefnd Bæjarlistamaður Akureyrar og sama ár hóf hún þátttöku í Dieter Roth akademíunni. Aðalheiður hefur nokkrum sinnum hlotið starfslaun ríkisins.

Í desember 2011 keypti Aðalheiður Alþýðuhúsið á Siglufirði og hefur komið upp vinnustofu, heimili og viðburðastað þar. Frá árinu 2012 hefur Aðalheiður staðið fyrir margþættu menningarstarfi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og endurvakið Kompuna þar í litlu rými. Aðalheiður hefur kappkostað að sýna fjölbreytta nútímamyndlist með því markmiði að opna hurð inn í heim myndlistar fyrir almenning.

Aðalheiður hlaut menningarverðlaun DV árið 2015. 
Fjöldamörg verk eftir Aðalheiði prýða ýmsa staði á Íslandi. Þrívíðir tréskúlptúrar hennar sem unnir eru úr tilfallandi og fundnu efni eru einstakir  og auðþekkjanlegir og skúlptúrsinnsetningar hennar verða sífellt umfangsmeiri. Tilbrigðasterkir karakterar eftir Aðalheiði prýða marga staði, innan sem utandyra víðs vegar á landinu.

Vinnustofa og heimili Aðalheiðar er í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og í  Freyjulundi, 601 Akureyri.   

 

 
Lágmynd unnin af Aðalheiði   Garðurinn við Alþýðuhúsið