Fréttir

Úthlutunarreglur byggðakvóta.

Á heimasíðu Þormóðs ramma – Sæbergs má sjá yfirlýsingu vegna reglna um úthlutun byggðakvóta á Siglufirði fiskveiðiárið 2005-2006. Bæjaryfirvöld harma niðurstöðu þeirrar yfirlýsingar þar sem beinlínis er gefið í skyn að Siglufjarðarkaupstaður sé með reglum sínum að senda fyrirtækinu ÞRS skýr skilaboð um að bæjaryfirvöld hafi ekki áhuga á að taka þátt í að leysa þann vanda sem blasir við rækjuvinnslu hér í bæ. Ugglaust má ávallt gagnrýna úthlutun byggðakvóta og sitt sýnist að sjálfsögðu hverjum hvað það varðar en úthlutunarreglur eru nú gerðar af bestu vitund og með hagsmuni heildarinnar í huga. Byggðakvóti er fyrst og fremst hugsaður til þess að styrkja vinnslu og veiðar í viðkomandi byggðarlagi. Gríðarlegur vöxtur hefur verið í útgerð smábáta á Siglufirði á árinu sem er að líða og má nefna að landaður afli smábáta á árinu 2005 er nú um 4700 tonn á móti um 1500 tonnum allt árið 2004. Reglur um úthlutun byggðakvóta ákvarðast því fyrst og fremst á því að bæjaryfirvöld telja mikilvægt að styðja við þá þróttmiklu smábátaútgerð sem hér hefur verið að vaxa. Jafnframt má nefna að á síðasta ári var hér settur á fót fiskmarkaður m.a. með þátttöku Þormóðs ramma – Sæbergs og telja bæjaryfirvöld afar mikilvægt að við slíka starfsemi, nýja starfsemi í atvinnuflóru Siglufjarðar, sé reynt að styðja með tiltækum ráðum. Það eru því fyrst og síðast þau sjónarmið að verið sé að skjóta styrkari stoðum undir vaxtarbrodda í atvinnulífi Siglufjarðar sem ráða för þegar reglur um úthlutun byggðakvóta eru samþykktar í bæjarstjórn Siglufjarðar. Bæjaryfirvöld á Siglufirði hafa fullan skilning á þeim vanda sem sjávarútvegur og þá helst rækjuvinnsla á við að glíma um þessar mundir og eru að sjálfsögðu tilbúin til viðræðna við fyrirtæki ÞRS um lausnir á þeim vanda. Stjórnendum og starfsmönnum Þormóðs ramma – Sæbergs óska bæjaryfirvöld góðs gengis og gleðilegrar hátíðar sem og bæjarbúum öllum og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi.
Lesa meira

Sameining sveitarfélaga.

Nokkrar athugasemdir hafa verið gerðar vegna þess að ekki hafi farið fram kynning á stöðu mála varðandi kosningar um sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Staðan á þessum málum er þannig að beðið er samantektar frá Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri og frá endurskoðendum sveitarfélaganna en þegar þær upplýsingar liggja fyrir verða málin að sjálfsögðu kynnt fyrir íbúum þessara staða mjög nákvæmlega. Bæjarstjórnir beggja staða hafa samþykkt eftirfarandi tillögu eins og fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar: "Samstarfsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem kosin var annars vegar á fundi bæjarstjórnar Ólafsfjarðar þann 27. október 2005 og hinsvegar bæjarstjórnar Siglufjarðar þann 27. október 2005 leggur til að gengið verði til kosninga um sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Sigufjarðarkaupstaðar og stefnt verði að kosningu laugardaginn 28. janúar 2006."Hér er því stefnt að kosningu þann 28. janúar 2006 og því var tímabært að auglýsa utankjörfundaratkvæðagreiðslu þar sem nokkurn tíma verður að gefa til slíkrar atkvæðagreiðslu. Gera má ráð fyrir því að upplýsingar frá RHA og endurskoðendum liggi fyrir nú rétt fyrir jól og verða því kynningar á stöðu mála í framhaldi af því.
Lesa meira