Upplýsingapóstur frá bæjarstjóra

Hólshyrnan í Siglufirði
Mynd: Jón Steinar
Hólshyrnan í Siglufirði
Mynd: Jón Steinar

Kæru íbúar Fjallabyggðar,

Nú líður að lokum fyrstu vikunnar frá því að takmarkanir stjórnvalda á samkomuhaldi og mannsöfnun til að hindra útbreiðslu kórónuveirunnar tóku gildi. Þjónusta stofnana bæjarfélagsins hefur breyst, verið skert að einhverju leyti eða takmörkuð. Engu að síður höfum við náð að halda uppi þjónustustiginu, að því marki sem aðstæður hafa gert mögulegt.

Viðbragðsáætlun Fjallabyggðar við heimsfaraldri hefur verið birt á vefnum og má nálgast tilkynningu varðandi hana sem og áætlunina hér.

Í vikunni samþykkti Alþingi bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög sem heimilar tímabundið notkun fjarfundabúnaðar fyrir fundi nefnda og ráða. Þetta mun Fjallabyggð nýta sér og munu fundir bæjarstjórnar, bæjarráðs og nefnda fara fram í fjarfundi á komandi vikum.

Undanfarna viku hefur skrifstofa ráðhússins verið rekin með þeim hætti að aðgengi að henni hefur verið mjög takmarkað. Frá og með komandi mánudegi verður starfsfólki skipt upp og munum við skiptast á að vinna að heiman frá þeim degi. Símsvörun verður með eðlilegum hætti og þjónusta veitt í samræmi við aðstæður, þ.e. í síma, með myndfundum og tölvupósti. Fundir með „hefðbundnum“ hætti verða ekki mögulegir nema rík nauðsyn krefji.

Almannavarnir hafa biðlað til leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila að taka með jákvæðum hætti í að þeir aðilar sem sinna samfélagslega mikilvægri þjónustu svo sem í heilbrigðisgeiranum og viðbragðsgeiranum fái forgang fyrir börn sín í vistun. Við í Fjallabyggð tökum þessum óskum alvarlega og beinum því til vinnuveitenda að hafa beint samband við stjórnendur viðkomandi stofnana til samráðs um þetta málefni.

Starf í leik- og grunnskóla hefur gengið vel þegar á heildina er litið. Stjórnendur og starfsfólk hafa unnið þar gríðarlega gott starf og tekið höndum saman um að gera námsumhverfi nemenda eins gott og hægt er við þær aðstæður sem nú ríkja og eiga þeir hrós og þakkir skyldar.

Þá má þess líka geta að foreldrar leikskólabarna hafa létt undir skipulagi og starfi leikskólans með því að hafa börn heima þar sem möguleiki er fyrir hendi, sama á við um lengda viðveru að loknum skóladegi grunnskólabarna. Slíkt er ekki sjálfgefið og ber að þakka það.  Það er ljóst að starfið í skólanum er viðkvæmt og einstaka daga eru frekari skerðingar óhjákvæmilegar þar sem ekki er hægt að leysa forföll starfsmanna með tilfærslu milli hópa.

Félagsþjónustan hefur dregið úr starfsemi félagsstarfs aldraðra í Skálarhlíð, Húsi eldri borgara í Ólafsfirði og Iðju fatlaðra á Siglufirði. Heimsóknarbann er í gildi á hjúkrunarheimilinu Hornbrekku, Ólafsfirði og búsetu fatlaðra að Lindargötu 2 á Siglufirði. Gestir sem leggja leið í íbúðir aldraðra í Skálarhlíð eru beðnir um að gæta fyllstu varúðar með smitvarnir. Heimaþjónusta er enn með óbreyttu sniði en ef þörf krefur verður þjónustunni forgangsraðað. Allt kapp verður lagt á að halda úti nauðsynlegri þjónustu fyrir skjólstæðinga félagsþjónustunnar í brýnni þörf.

Í ljósi þess að veiran er bráðsmitandi og dreifist nú um landið með auknu álagi á innviði samfélagsins vil ég beina því til íbúa að þeir takmarki ferðalög og samgang sem kostur er. Einnig tel ég ráðlegt að við lágmörkum heimsóknir utan að komandi á meðan þetta ástand varir og nýtum frekar síma, samfélagsmiðla og aðrar þessháttar lausnir til samskipta. Klárlega má telja þetta harkaleg tilmæli, en nú þegar hefur skapast álag á heilbrigðiskerfin á Norðurlandi og við verðum að leggja okkar að mörkum til að lágmarka það álag sem kostur er.

Ágætu íbúar, fram undan eru snúnir tímar þar sem mikið mun á okkur mæða þó með sitthvorum hætti verði. Á tímum sem þessum er mikilvægt að huga heilsunni, bæði þeirri andlegu og líkamlegu ásamt að huga að samstarfsfólki, nágrönnum og einstæðingum í okkar nánasta umhverfi. En jafnvíst og að fram undan eru snúnir tímar þá er víst að við komumst í gegn um þá og stöndum sterkari á eftir.

Að lokum óska ég öllum íbúum Fjallabyggðar sem og öðrum góðrar helgar.

Elías Pétursson, bæjarstjóri