Sameining sveitarfélaga.

Nokkrar athugasemdir hafa verið gerðar vegna þess að ekki hafi farið fram kynning á stöðu mála varðandi kosningar um sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Staðan á þessum málum er þannig að beðið er samantektar frá Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri og frá endurskoðendum sveitarfélaganna en þegar þær upplýsingar liggja fyrir verða málin að sjálfsögðu kynnt fyrir íbúum þessara staða mjög nákvæmlega. Bæjarstjórnir beggja staða hafa samþykkt eftirfarandi tillögu eins og fram kemur í fundargerð bæjarstjórnar: "Samstarfsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem kosin var annars vegar á fundi bæjarstjórnar Ólafsfjarðar þann 27. október 2005 og hinsvegar bæjarstjórnar Siglufjarðar þann 27. október 2005 leggur til að gengið verði til kosninga um sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Sigufjarðarkaupstaðar og stefnt verði að kosningu laugardaginn 28. janúar 2006."Hér er því stefnt að kosningu þann 28. janúar 2006 og því var tímabært að auglýsa utankjörfundaratkvæðagreiðslu þar sem nokkurn tíma verður að gefa til slíkrar atkvæðagreiðslu. Gera má ráð fyrir því að upplýsingar frá RHA og endurskoðendum liggi fyrir nú rétt fyrir jól og verða því kynningar á stöðu mála í framhaldi af því.