Njótið Ólafsfjarðar

Skemmtilegar myndir utan á Tjarnarborg
Skemmtilegar myndir utan á Tjarnarborg

Utan á Menningarhúsið Tjarnarborg hafa verið settar upp myndir úr Ólafsfirði. Myndirnar eru settar upp sem nokkurs konar ratleikur þar sem spurning er á hverri mynd og fólk hvatt til að staldra við og kynna sér staðhætti eða leysa þær spurningar sem settar eru fram. Síðan eru settar fram hugmyndir um hvað hægt sé að gera í Ólafsfirði.

- Fara út á bryggju og veiða þorsk eða ufsa á grillið. Björgunarvesti fyrir börn má finna á bryggjunni.
- Fara á Ósbrekkusand og leita fjársjóða eða skapa listaverk. Keppa um hver finnur flesta hluti sem byrja á S. T.d. sand, skel, spýtu, stein og síðan er það bara hugmyndaflugið sem skapar sigurvegara.
Við Ósbrekkusand (vegurinn í átt að Kleifum) eru gamlir fiskhjallar þar sem margir búa til sín eigin listaverk. Kannski þú líka? Hægt er að grilla í skjólgóðri laut og leika sér í umhverfinu.

Það er Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar sem stendur fyrir þessu skemmtilega verkefni. Lára Stefánsdóttir tók myndirnar.