Menningarstarf í Alþýðuhúsið á Siglufirði hlýtur Eyrarrósina 2023

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Brák Jónsdóttir og Eliza Reid
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Brák Jónsdóttir og Eliza Reid

Menningarstarf í Alþýðuhúsið á Siglufirði hlýtur Eyrarrósina 2023.

Eyrarrósin 2023, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins, var afhent í átjánda sinn í dag miðvikudaginn 3. maí, við hátíðlega athöfn á Hvammstanga. Frú Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar afhenti verðlaunin.

Markmið viðurkenningarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Icelandair og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi árið 2005.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, listrænn stjórnandi Alþýðuhússins og dóttir hennar Brák Jónsdóttir tóku á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að upphæð tveimur og hálfri milljón króna.

Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2023 hlutu Alþjóðleg píanóhátíð á Vestfjörðum, Vesturbyggð, Hnoðri í norðri, Akureyri og Raddir úr Rangárþingi, Hellu.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hefur í tvígang verið tilnefnt til Eyrarrósarinnar, árin 2017 og 2020 og hlaut Þjóðlagahátíðin á Siglufirði viðurkenninguna árið 2005.

Fjallabyggð óskar Alþýðuhúsinu og Aðalheiði S. Eysteinsdóttur innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu og fyrir hið gríðarlega mikla og góða starf sem hún hefur gefið til samfélagsins á síðastliðnum áratug. Fjallabyggð tilnefndi í ár,  menningarstarf í Alþýðuhúsinu til verðlaunanna. 

 

Myndir af vef Listahátíðar í Reykjavík.