Lubba vinna í leikskólanum

Leikskólinn í Fjallabyggð hefur unnið markvisst með Lubba námsefni í 1 ár. Námsefnið er hugsað til málörvunar og hljóðnáms fyrir börn á aldrinum eins til sjö ára. Höfundar efnisins eru Þóra Másdóttir og Eyrún Ísfold Gísladóttir talmeinafræðingar http://www.lubbi.is/. Rannsóknir sýna það að hljóðanám eflir hljóðkerfisvitund barna og leggur góðan grunn að lestrarnámi. Efnið stuðlar einnig að auðugri orðaforða og ýtir undir skýrari framburð. Vinnan í leikskólanum í Fjallabyggð hefur gengið mjög vel og efnið er sýnilegt á deildum, unnið er með stafina á fjölbreyttan hátt og hver deild lagar námsefnið að aldri og þroska barnanna. Við höfum fundið fyrir því að vinnan okkar skilar árangri og með góðu upplýsingaflæði til heimilis þá eru foreldrar meðvitaðri um starfið okkar.  

Vinnan hefur gengið einstaklega vel með börnum með sérþarfir, það sjáum við á gleðinni sem ríkir og hljóðum sem viðkomandi einstakingar ná að tileinka sér. Óskað var eftir nærveru kennara frá leikskólanum á Lubba vinnufund í Reykjavík þann 2. febrúar. Á þessum vinnufundi komu saman kennarar víða af landinu til samráðs um Lubba vinnuna. Þar sögðum við sérstaklega frá okkar vinnu með börnum með sérþarfir, sýndum efnivið sem við höfum búið til, myndir og videó myndbrot af okkar vinnu.

Markmið með læsis kennslu samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskrifa og umskapa heiminn með því að búa sér til eigin merkingu og bregðast við á persónulegan og skapandi hátt.

Vinnan okkar með Lubba námsefnið er ein af leiðunum að þessu markmiði.

Læsi er lykill að ævintýrum.