Hreyfivika 21. - 27. september

Þessi mættu á kynningarfund um Hreyfiviku
Þessi mættu á kynningarfund um Hreyfiviku

Hreyfivikan, eða Move Week, er partur af alþjóðlegri herferð sem hefur það að markmiði að kynna kosti þess að taka virkan þátt í hreyfingu og íþróttum til að bæta heilsuna. Þessi herferð fór af stað í Evrópu 2012 og Ísland var með í fyrsta sinn 2013 og er verkefnið á höndum Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) hér á landi. Framtíðarsýn þeirra sem standa að Move Week er að 100 milljónir fleiri Evrópubúa verði orðnir virkir í hreyfingu og eða íþróttum fyrir árið 2020.

Hreyfingarleysi verður sífellt stærra heilsufarsvandamál og er talið að á hverju ári megi rekja um 600.000 dauðsföll í Evrópu beint til hreyfingarleysis. Því er mikilvægt að sem flestir finni sér hreyfingu við hæfi og hreyfi sig rösklega í a.m.k. 30 – 60 mínútur á dag.

UÍF, aðildarfélög þess og Fjallabyggð tóku þátt í verkefninu í fyrra og munu endurtaka leikinn í ár. Í ár verður vikan 21. - 27. september.
Í morgun var haldinn kynningarfundur þar sem voru mættir fulltrúar aðildarfélaga UÍF, MTR og Fjallabyggðar. Þeir sem hafa áhuga á því að taka þátt í hreyfiviku eða bjóða upp á eitthvað skemmtilegt geta haft samband við starfsmann UÍF, Brynju I. Hafsteinsdóttur, í gegnum netfangið brynja@uif.is

Hreyfivika í Fjallabyggð. Brynja I. Hafsteinsdóttir
Brynja I. Hafsteinsdóttir, starfsmaður UÍF, stýrði kynningarfundi um Hreyfiviku nú í morgun.