Framkvæmdir við stoðmannvirki ganga vel

Thomas verkefnastjóri upp á einu stoðvirkinu
Mynd:  Helgi Hinriksson
Thomas verkefnastjóri upp á einu stoðvirkinu
Mynd: Helgi Hinriksson

Framkvæmdir við uppsetningu stoðvirkja fyrir ofan byggðina í Siglufirði á vegum Ofanflóðasjóðs og Fjallabyggðar hafa gengið mjög vel í sumar. Áætlanir gera ráð fyrir að verkið allt klárist í lok næsta sumars. Verktakar munu verða við vinnu í fjallinu út september og mæta svo aftur til vinnu næsta vor. Viðvaranir við gönguferðir upp í Hvanneyrarskál eru því enn í gildi meðan á framkvæmdum stendur eða út september. Viðvaranir standa milli kl. 7:00 og 17:00 mánudaga - laugardaga. Engar framkvæmdir eru á sunnudögum og göngueiðin því opin nema annað komi fram.  Göngufólk er vinsamlegast beðið að virða lokanir enda mikil hætta á grjóthruni úr fjallinu og er því öll óviðkomandi umferð  bönnuð á tilgreindum tíma.

Verktaki framkvæmdanna er fyrirtækið Köfunarþjónustan en undirverktaki hjá þeim er fyrirtækið DTV. Á þeirra vegum starfa nú 12-14 litháiskir einstaklingar með mikla reynslu af framkvæmdum sem þessum. Það eru bræðurnir Thomas og Donatas sem eru eigendur DTV og eru verkefnisstjórar framkvæmdanna. Þeir hafa unnið að öllum framkvæmdum í fjallinu og eru búnir að dvelja á Siglufirði í 9 sumur. Að sögn Sigurðar Hlöðverssonar, verkefnisstjóri hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, sem hefur yfirumsjón með verkinu, hefur verið einstaklega gott að vinna með þessum verktökum og verkið gengið samkvæmt áætlun. Þarna eru miklir fagaðilar á ferð og allur öryggisviðbúnaður til fyrirmyndar.

Meðfylgjandi mynd  tók Helgi Hinriksson framkvæmdastjóri Köfunarþjónustunnar af Thomasi verkefnastjóra upp á einu stoðvirkinu,