Endurbótum lokið við skólalóðir Grunnskóla Fjallabyggðar

Framkvæmdum og endurbótum er lokið við skólalóðir Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði og á Siglufirði og eru þær hinar glæsilegustu.

Frá því 2017 hafa staðið yfir viðamiklar endurbætur á skólalóðum Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði og á Siglufirði.

Verkin voru unnin í þremur áföngum og hófust framkvæmdir við 1. áfanga skólalóðarinnar við Norðurgötu á Siglufirði sumarið 2017. Annar áfangi var unnin 2018 og sá þriðji nú í sumar.  Vinna hófst við 1. áfanga á skólalóðinni í Ólafsfirði sumarið 2018 og voru áfangar tvö og þrjú kláraðir í sumar.

Á skólalóðunum hefur meðal annars verið komið fyrir hjólabogum, leiktækjum s.s. trampólíni, vegasalti, rólum, klifur- og jafnvægistækjum og aparólum. Einnig eru nýir glæsilegir körfuboltavellir á lóðunum auk hreystibrautar sem sett var á skólalóðina í Ólafsfriði. Fallvarnarbúnaður var settur undir aparólur og Tartan efni á körfuboltavellina sem dregur úr hljóðmengun og slysahættu. Umhverfis leiktæki var lagt gervigras sem gerir umhverfið snyrtilegra.

Heildarkostnaður við endurgerð lóðanna er áætlaður ríflega 200 milljónir króna.

Skólalóðirnar eru öllum aðgengilegar utan hefðbundins skólatíma og eru íbúar hvattir til að skoða nýju skólalóðarinnar laugardaginn 31. ágúst nk.

  

Hægt er að skoða fleiri myndir hér.