Auglýst eftir hugmyndum að áhersluverkefnum

Málsnúmer 1912052

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 634. fundur - 07.01.2020

Lagt fram erindi Helgu Maríu Pétursdóttur fyrir hönd Eyþings sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum dags. 20.12.2019 þar sem fram kemur að Eyþing auglýsir eftir hugmyndum að áhersluverkefnum fyrir árið 2020.

Áhersluverkefni eru samningsbundin verkefni sem hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Verkefni geta til dæmis verið ráðgjafar- og átaksverkefni á sviði nýsköpunar-, menningar- og umhverfismála.
Áhersluverkefnin skulu samþykkt af stjórn Eyþings og þurfa að hljóta staðfestingu stýrihóps Stjórnarráðsins um byggðamál. Yfirlit yfir áhersluverkefni Eyþings má finna á heimasíðu Eyþings www.eything.is.

Horft verður til færri og stærri styrkja á sviði umhverfis-, menningar- og atvinnumála að þessu sinni. Fram þarf að koma lýsing á verkefninu ásamt mögulegri framkvæmd þess.

Hægt er að skila inn hugmyndum til 15. janúar 2020 á netfangið vigdis@eything.is.

Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn markaðs- og menningarfulltrúa og að erindið verði auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 637. fundur - 28.01.2020

Á 634. fundi bæjarráðs óskaði ráðið eftir umsögn markaðs- og menningarfulltrúa varðandi áhersluverkefni sem hægt væri að senda inn umsókn fyrir til Eyþings en í auglýsingu kemur fram að áhersluverkefni séu samningsbundin verkefni sem hafa beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Verkefni geta til dæmis verið ráðgjafar- og átaksverkefni á sviði nýsköpunar-, menningar- og umhverfismála.

Lagt fram vinnuskjal markaðs- og menningarfulltrúa þar sem fram kemur að ekkert verkefni er á fjárhagsáætlun Fjallabyggðar sem gæti á þessum tímapunkti flokkast og fallið undir áhersluverkefni og sem hefur beina skírskotun til sóknaráætlunar landshlutans og styðja við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Undirrituð leggur hins vegar til að sótt verði um styrk vegna verkefnisins „Aðgengi að hringsjánni á Álfhól“, Siglufirði sem er á fjárhagsáætlun ársins 2020 en umsóknarfrestur þar er venjulega í október ár hvert.

Bæjarráð samþykkir að fela markaðs- og menningarfulltrúa að sækja um styrk í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Uppbyggingasjóð Norðurlands eystra vegna verkefnisins „Aðgengi að hringsjánni á Álfhól, Siglufirði“.