Reglur og verklag er varðar veitingu styrkja til menningar- og frístundamála

Málsnúmer 1609088

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 467. fundur - 27.09.2016

Á fund bæjarráðs mætti deildarstjóri fræðslu- frístunda- og menningarmála Kristinn J. Reimarsson.

Teknar til umfjöllunar reglur og verklag vegna styrkveitinga Fjallabyggðar til félaga og félagasamtaka.

Bæjarráð samþykkir eftirfarandi reglur og verklag er varðar veitingu styrkja til menningar- og frístundamála og greiðslu fasteignaskatts í Fjallabyggð:

Styrkir til menningar- og frístundamála.

Til þess að umsókn sé talin fullgild og verði tekin til afgreiðslu verður hún að berast innan tilskilins tímafrests og umbeðin gögn, þ.e. skattframtal eða síðast samþykkti ársreikningur og greinargerð um hvernig á að nýta styrkinn, verða að fylgja umsókn. Umsóknarfrestur er tvær vikur.

Sömu kröfur er gerðar vegna umsókna um styrk vegna afnota á mannvirkjum Fjallabyggðar.

Fjallabyggð gerir þá kröfu að styrkþegi geri grein fyrir því hvernig styrknum var varið og skal greinargerð þess efnis skilað til sveitarfélagsins eigi síðar en 31. janúar vegna síðast liðins árs.
Hafi styrkurinn ekki verið nýttur í samræmi við upphaflega áætlun eða alls ekki nýttur ber styrkþega að skila styrkupphæðinni aftur til sveitarfélagsins.

Styrkupphæðin greiðist sem hér segir:
Styrkupphæð sem er lægri en 300.000 kr. greiðist í einu lagi á fyrri hluta árs.
Styrkupphæð sem er hærri en 300.000 kr. greiðist í tvennu lagi; 50% upphæðarinnar greiðist á fyrri hluta árs en lokagreiðsla greiðist þegar verkefninu er lokið og fullnægjandi greinargerð hefur verið skilað inn til sveitarfélagsins.

Styrkur vegna greiðslu fasteignaskatts.

Til þess að umsókn sé talin fullgild og verði tekin til afgreiðslu verður hún að berast innan tilskilins tímafrests og umbeðin gögn, þ.e. skattframtal eða síðast samþykkti ársreikningur og greinargerð um starfsemi umsækjanda, verða að fylgja umsókn. Umsóknarfrestur er tvær vikur.
Styrkupphæðin getur numið allt að álögðum fasteignaskatti og greiðist á fyrri hluta árs.

Þessar reglur skal taka til umfjöllunar við undirbúning gerðar fjárhagsáætlunar ár hvert.