Starf yfirhafnarvarðar

Málsnúmer 1403005

Vakta málsnúmer

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 55. fundur - 07.04.2014

Lagðar fram umsóknir um starf yfirhafnarvarðar.

Tólf umsóknir bárust.

Ársól Von Ólafsdóttir, Siglufirði

Baldur Jörgen Daníelsson, Siglufirði

Halldór Bogi Sigurðsson, Siglufirði

Kristinn Krisjánsson, Siglufirði

Óðinn Gunnarsson, Siglufirði

Páll Heimir Pálsson, Akureyri

Ríkharður Hólm Sigurðsson, Ólafsfirði

Kjartan Smári Ólafsson, Siglufirði

Sigurgeir Haukur Ólafsson, Siglufirði

Skúli Gunnarsson, Garðabæ

Sverrir Mjófjörð Gunnarsson, Ólafsfirði

Þorbjörn Sigurðarson, Ólafsfirði.

Hafnarstjórn þakkar framkomnar umsóknir og leggur til að tekin verði viðtöl við þá umsækjendur

sem koma frekast til greina í samræmi við auglýsingu að fengnu áliti ráðningarstofu.

Hafnarstjóra er falið að boða þá aðila til viðtals og leggja niðurstöður og tillögu fyrir hafnarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 56. fundur - 09.04.2014

Formaður setti fund og bauð Þóru Pétursdóttur, ráðgjafa Capacent velkomna til fundar.

Eftir umræður var henni falið að meta umsækjendur.

Samþykkt samhljóða.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 57. fundur - 09.05.2014

Á fundinum var fjarfundarsamband við Þóru Pétursdóttur, ráðgjafa hjá Capacent.
Þóra lagði fram sína tillögu um umsækjendur og vék síðan af fundi.
Eftir umræður og yfirferð Capacent um umsækjendur var niðurstaða hafnarstjórnar, að mæla með því, að í starf yfirhafnarvarðar yrði ráðinn Kristinn Kristjánsson.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
 

Bæjarráð Fjallabyggðar - 340. fundur - 13.05.2014

Lögð fram greinargerð frá Capacent og fundargerð hafnarstjórnar frá 9. maí 2014.

Hafnarstjórn ákvað á fundi sínum þann 7. apríl 2014 að fá ráðgjafafyrirtækið Capacent til þess að taka viðtöl og meta hæfni umsækjenda um stöðu yfirhafnavarðar.
Capacent skilaði af sér rökstuddri niðurstöðu og telur einn umsækjanda hæfastan.
Á fundi sínum dags 9. maí 2014 var það niðurstaða hafnarstjórnar að mæla með öðrum umsækjanda en Capacent mat hæfastan. Niðurstaða hafnarstjórnar var án rökstuðnings.

Bæjarráð fer þess á leit við hafnarstjórn að hún rökstyðji niðurstöðu sína áður en bæjarráð tekur ákvörðun.

Hafnarstjórn Fjallabyggðar - 58. fundur - 16.05.2014

Formaður hafnarstjórnar lagði fram bréf bæjarstjóra frá 14. maí 2014.  Þar kemur fram að á 340. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 13. maí  2014 hafi verið tekin fyrir fundargerð hafnarstjórnar frá 9. maí  2014.  Í fundargerð hafnarstjórnar kom fram að mælt er með öðrum umsækjanda en Capacent mat hæfastan. Niðurstaða hafnarstjórnar var án rökstuðnings.

Bæjarráð fer því þess á leit við hafnarstjórn að hún rökstyðji niðurstöðu sína áður en bæjarráð tekur endanlega ákvörðun í máli þessu.

Formaður hafnarstjórnar lagði fram tölvupóst dags. 15. maí 2014,  en þar kemur fram neðanritað

  

"Vinsamlegast birtið opinberlega.

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið og þeirra viðbragða sem ég hef fengið vegna ráðningar í stöðu yfirhafnarvarðar langar mig til þess koma réttum upplýsingum á framfæri.

Þrátt fyrir að hafnarnefnd hafi gengið gegn niðurstöðu ráðningafyrirtækis og ákveðið að mæla með mér í starfið hef ég ekki verið ráðinn.  Það kemur skýrt fram í fundargerð bæjarráðs.

Það er vegna þess sem ég hef nefnt hér að ofan að ég hef ákveðið að draga umsókn mína tilbaka og er það ósk mín að það muni skapa sátt í samfélaginu og einfalda ráðningu nýs yfirhafnarvarðar.

Ég vil nota tækifærið og óska nýjum yfirhafnarverði alls hins besta.

Bestu kveðjur,
Kristinn Kristjánsson"

Hafnarstjórn lýsir vonbrigðum með að sá umsækjandi sem nefndin mælti eindregið með í starf yfirhafnarvarðar í Fjallabyggð hafi dregið umsókn sína til baka.


Eftir umræður og yfirferð ákvað hafnarstjórn að vísa málinu til bæjarráðs og til endanlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn Fjallabyggðar.

Bæjarráð Fjallabyggðar - 341. fundur - 22.05.2014

Á 101.  fundi bæjarstjórnar þriðjudaginn 20. maí var máli nr. 1403005 vísað til fullnaðarafgreiðslu bæjarráðs, en um er að ræða starf yfirhafnarvarðar.

Lögð fram skýrsla frá Capacent þar sem fram kemur m.a. að tekin voru greiningarviðtöl við níu umsækjendur um stöðu yfirhafnarvarðar.
Að þeim viðtölum loknum voru aftur tekin viðtöl við þá fimm umsækjendur sem þóttu uppfylla hæfniskröfurnar best.
Niðustaða Capacent var að Þorbjörn Sigurðsson uppfyllti best þær kröfur sem gerðar eru. Hæfni Þorbjarnar var rökstudd í greinargerð Capacent.

Bæjarráð samþykkir að ráða Þorbjörn Sigurðsson hafnarvörð í starf yfirhafnarvarðar frá 1. júní 2014.


Í framhaldi af ofanrituðu er hafnarstjóra falið að auglýsa starf hafnarvarðar laust til umsóknar.
Frestur til að sækja um starfið er til fimmtudagsins 12. júní n.k.