Stækkun húsnæðis Grunnskóla Fjallabyggðar

Málsnúmer 1109042

Vakta málsnúmer

Bæjarráð Fjallabyggðar - 228. fundur - 12.09.2011

Bæjarstjóri lagði fram teikningar af áformuðum stækkunum við Grunnskóla Fjallabyggðar. Einnig var lögð fram tillaga um tilhögun framkvæmda.

1. Tillaga að byggingarframkvæmdum við Grunnskóla Fjallabyggðar.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn Fjallabyggðar að ráðist verði í framkvæmdir við stækkun Grunnskóla Fjallabyggðar sem hér segir:

1. áfangi.
· Í Ólafsfirði verði ráðist í stækkun skólans í samræmi við tillögur arkitekta.
· Bæjarstjóra er falið að leggja tillögurnar fyrir skipulags- og umhverfisnefnd.
· Verkfræðihönnun hefst þegar teikningarnar hafa verið samþykktar.
· Útboð fari fram hið fyrsta og eigi síðar en um miðjan október.
· Tæknideild er falið að undirbúa jarðvegsskipti og gera byggingarsvæðið tilbúið undir uppslátt til að flýta framkvæmdum sem mest.
· Framkvæmdatími miðast við að húsnæðið verði tilbúið til afnota 01.09.2012.
· Áætlaður kostnaður er um 200 m.kr.

2. áfangi
· Á Siglufirði verði ráðist í framkvæmdir við stækkun grunnskólans í beinu framhaldi af framkvæmdum í Ólafsfirði í samræmi við tillögur arkitekta.
· Stefnt er því að útboði á árinu 2012.
· Lögð er áhersla á að húsnæðið verði tilbúið til afnota á skólaárinu 2013/2014.
· Framkvæmdir taki hins vegar árlega mið af fjárhagsgetu bæjarfélagsins hverju sinni.
· Framkomin framkvæmdaáform munu taka mið af þriggja ára áætlun sem tekin verður til samþykktar í desember 2011. Fyrir árin 2012 - 2014. Áætlaður kostnaður er um 200 m.kr.

2. Tilhögun á kennslu eftir að byggingarframkvæmdum lýkur.
· Bæjarráð beinir þeim tilmælum til fræðsluráðs að skólahald verði að jöfnu í báðum byggðakjörnum eftir því sem við verður komið og að kennslu verði háttað þannig að sem jafnast álag sé á ferðatíðni nemenda frá báðum byggðarkjörnum Fjallabyggðar.

3. Greinargerð með byggingarframkvæmdum.
Áætlaður byggingarkostnaður við umræddar framkvæmdir við Grunnskóla Fjallabyggðar er um 415 m.kr. og eru þá breytingar á núverandi húsnæði Menntaskólans inn í þeirri tölu. Reiknað er með því að sá kostnaður skili sér með rekstrarsparnaði á 10 árum.
· Áætlaður sparnaður í rekstri við að fækka skólahúsnæði um eina byggingu er talinn vera um 12 m.kr. á ári eða um 120 m.kr. á tíu árum.
· Áætlaður sparnaður í launum kennara og skólastjórnunar er talinn vera um 25 m.kr. á ári eða um 250 m.kr. á tíu árum.
· Sparnaður við húsvörslu og ræstingu er um 5 m.kr. á ári eða um 50 milljónir kr. á 10 árum.
· Heildarsparnaður er því um eða yfir 420 m.kr. á tíu árum. Nauðsynlegar endurbætur á skólahúsinu við Hlíðarveg á Siglufirði kosta álíka mikið og áætlaður kostnaður við viðbyggingu eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir. Mun hagkvæmara er að reka skólann í tveim húsum í stað þriggja.

4. Framkvæmdir við Menntaskólann á Tröllaskaga.
· Búið er að ákveða hvað þarf að framkvæma fyrir starfsemi Menntaskólans á Tröllaskaga.
· Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist strax að lokinni kennslu næsta vor og verði til afnota fyrir Menntaskólann 01.08.2012.
· Áætlaður kostnaður 15 m.kr.

5. Framkvæmdum við Tónlistarskólann er frestað þar til umræddum framkvæmdum er lokið.
· Bæjarráð leggur hins vegar áherslu á að finna þarf betra húsnæði fyrir Tónlistarskólann í Ólafsfirði og er lögð áhersla á að hann verði kominn í slíkt húsnæði fyrir næsta haust þ.e. fyrir 01.08.2012.

Bæjarráð samþykkti að vísa framkomnum tillögum til fræslunefndar og til fullnaðarafgreiðslu í bæjarstjórn.

 

Egill Rögnvaldsson lagði fram bókun:

"Eins og ég var búinn að bóka áður er ég ekki samþykkur því að ráðast í svo stóra framkvæmd og binda um leið allt það fé í einum málaflokki, en tölur sem liggja fyrir eru á bilinu 300 - 400 milljónir og þarf að taka allt þetta fé að láni, ég samþykki að ráðast áfanga 1 í Ólafsfirði, enda er þörfin brýn þar, en tökum allt málið upp er varðar Siglufjörð með það í huga að nýta neðra skólahúsnæðið betur til framtíðar".

Egill Rögnvaldsson, sign.