Hafnarstjórn Fjallabyggðar

120. fundur 06. maí 2021 kl. 16:15 - 17:15 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Tómas Atli Einarsson formaður, D lista
  • Þorgeir Bjarnason varamaður, H lista
  • Guðmundur Gauti Sveinsson aðalmaður, D lista
  • Ægir Bergsson aðalmaður, I lista
  • Nanna Árnadóttir aðalmaður, I lista
Starfsmenn
  • Elías Pétursson bæjarstjóri
  • Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar
  • Heimir Sverrisson yfirhafnarvörður
Fundargerð ritaði: Elías Pétursson hafnarstjóri

1.Aflatölur 2021

Málsnúmer 2101067Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir landaðan afla í höfnum Fjallabyggðar það sem af er ári ásamt tölum fyrri ára. Landað hefur verið 5.979 tonnum á Siglufirði í 259 löndunum, á Ólafsfirði hefur verið landað 253 tonnum í 153 löndunum.
Lagt fram

2.Rekstraryfirlit - 2021

Málsnúmer 2101007Vakta málsnúmer

Hafnarstjóri lagði fram til kynningar rekstraryfirlit vegna fyrstu þriggja mánaða yfirstandandi árs með samanburði við fyrra ár og gildandi fjárhagsáætlun. Tekjur hafna Fjallabyggðar eru 14,0 mkr. hærri en tekjur sama tímabils fyrra árs og 13,5 mkr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrargjöld eru einnig hærri en þau voru á fyrra ári sem og áætlun gerði ráð fyrir, þar ræður mestu kostnaður vegna aukinna umsvifa og viðhaldsverkefna sem unnin hafa verið í vetur. Rekstrarafkoma hafnarinnar er, fyrstu þrjá mánuði ársins, jákvæð um 1,0 mkr. Sem er mun betra en samtímaafkoma fyrra árs sem og áætluð afkoma.
Lagt fram

3.Koma skemmtiferðaskipa - 2021

Málsnúmer 2105008Vakta málsnúmer

Hafnarstjóri lagði fram og fór yfir yfirlit yfir bókanir skemmtiferðaskipa. Enn er nokkur óvissa um skipakomur en nú hafa 21 skip bókað viðkomu á Siglufirði í sumar. Nokkuð hefur verið um afbókanir sem ekki er óeðlilegt miðað við aðstæður.
Lagt fram

4.Prammi á Óskarsbryggju

Málsnúmer 2101066Vakta málsnúmer

Lagt er fram að nýju erindi Brynju Ingunnar Hafsteinsdóttur dags. 18. janúar 2020. Í erindinu er óskað eftir upplýsingum um hvort stöðuleyfi eða annað leyfi sé fyrir prammanum, og hvort eigendur prammans hafi greitt fyrir „aðstöðuna“ á bryggjunni. Loks er óskað eftir upplýsingum um hvort almennt sé heimilt að „staðsetja“ báta eða aðra lausamuni á bryggjum sveitarfélagsins.

Í umbeðnu svari tæknideildar kemur fram að samkvæmt dagbókum frá höfninni hafi pramminn verið tekinn á land á Óskarsbryggju þann 06. febrúar 2019. Fram að þeim tíma hafi pramminn legið við öldubrjótskant og legugjöld verið greidd af honum þar. Ekki var sótt um formlegt stöðuleyfi til Hafnarstjórnar fyrir prammanum enda hafi sú staða komið upp að pramminn var að sökkva og honum komið á land til þess að bjarga verðmætum.

Tæknideild hafði sambandi við eiganda/umsjónarmann prammans. Hann sagði að búið væri að endurnýja allan botn og hliðar í prammanum og eina sem eftir væri er að mála hann og í framhaldi að sjósetja. Hann sagði að pramminn yrði málaður í vor þegar hagstæð veðurskilyrði væru til staðar.
Almennt er heimilt að staðsetja báta, lausamuni eða aðra muni á hafnarsvæði í 5 daga gjaldfrjálst, eftir það greiðist samkvæmt gjaldskrá hafnarsjóðs. Geymsla er aðeins heimil með leyfi hafnarvarða.
Hafnarstjórn felur deildarstjóra tæknideildar að senda ofangreint á fyrirspyrjanda. Einnig felur hafnarstjórn yfirhafnarverði að innheimta gjöld af prammanum í samræmi við gjaldskrá hafnar frá og með 1. júní nk., sama á við ef um önnur tilvik geymslu lausamuna á hafnarsvæðum er að ræða. Að síðustu felur hafnarstjórn yfirhafnarverði og tæknideild að vinna yfirlit yfir veitt stöðuleyfi á hafnarsvæðum Fjallabyggðar og láta fjarlægja lausamuni sem ekki er leyfi fyrir.

5.Breytingar á vigtarhúsi, verðkönnun

Málsnúmer 2101024Vakta málsnúmer

Lögð er fram samantekt tæknideildar á framkvæmdakostnaði vegna breytinga á vigtarskúr á Siglufirði ásamt yfirliti yfirhafnarvarðar um breytingar sem unnar voru.
Lagt fram

6.Flotbryggjan í Ólafsfirði

Málsnúmer 2101069Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfirhafnarvarðar yfir framkvæmdir sem staðið hafa yfir á festingum flotbryggju á Ólafsfirði, einnig er lögð fram úttekt Köfunarþjónustunnar ehf. á flotbryggjunni með áherslu á botnfestur. Framkvæmdum er lokið og lagt til að látið verði reyna á þessar breytingar næsta vetur og sjá svo til með framhaldið.
Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju sinni með framkvæmdina og felur yfirhafnarverði að fylgjast vel með þróun mála og leggja niðurstöður eftirfylgni fyrir hafnarstjórn í lok næsta vetrar.

7.Viðbragðsáætlanir hafna 2021 - Fjallabyggðarhafnir

Málsnúmer 2101080Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Umhverfisstofnunar dags. 16. apríl sl. Fram kemur að stofnunin hafi yfirfarið viðbragðsáætlun Fjallabyggðarhafna vegna bráðamengunar með hliðsjón af leiðbeiningarreglum um gerð viðbragðsáætlana útgefnum af Umhverfisstofnun árið 2015. Með bréfinu samþykkir Umhverfisstofnun viðbragðsáætlanir hafna Fjallabyggðar sbr. 11 gr. reglugerðar nr. 1010/2012. Einnig er lögð fyrir fundinn afrit af samþykktri viðbragðsáætlun með áritun um samþykki Umhverfisstofnunar.
Lagt fram

8.Atvinnu,- útgerðar- og hafnarsaga Ólafsfjarðar í máli og myndum

Málsnúmer 2104094Vakta málsnúmer

Lagt er fram minnisblað menningarfulltrúa dags. 21. apríl sl., minnisblaðið er samið að ósk bæjarstjóra. Efni minnisblaðsins snýr að hugmynd sem Björn Þór Ólafsson í Ólafsfirði lagði fyrir bæjarstjóra þess efnis að veggur sem liggur út með svokölluðum öldubrjót á Ólafsfirði verði nýttur til að kynna útgerðar- og atvinnusögu Ólafsfjarðar. Kynning yrði með þeim hætti að safnað yrði myndum og sögubrotum sem sett væru á til þess gerð skilti sem fest væru á vegginn. Útfærslan væri með þeim hætti að elstu sögubrot og myndir væru næst vigtarhúsi og sagan rakin í tímaröð út eftir veggnum. Einnig eru í minnisblaðinu rakin tvö önnur verkefni sem nú eru í gangi og horfa þarf til við þróun ofangreindar hugmyndar.
Hafnarstjórn tekur vel í erindið og telur að hugmyndin sé góð ásamt að samræmast mjög vel áherslum sem sjá má stað í drögum að deiliskipulagi hafnarinnar. Hafnarstjórn felur hafnarstjóra að þróa hugmyndina áfram í samræmi við fram lagt minnisblað, leitast skal við að vinna verkefnið með þeim hætti að sótt verði um styrki til undirbúnings og framkvæmdar.

9.Deiliskipulag hafnar- og athafnasvæðis í Ólafsfirði

Málsnúmer 2102035Vakta málsnúmer

Lagðar fram umsagnir vegna skipulagslýsingar deiliskipulags hafnar- og athafnasvæðis í Ólafsfirði. Umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni. Einnig lögð fram drög að deiliskipulagstillögu.
Hafnarstjórn samþykkir fyrir sitt leyti að drög að deiliskipulagi verði kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum með opnu húsi í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem nefndir eru í ábendingum umsagnaraðila.

Vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.

10.Úrgangsolía á hafnarsvæðum

Málsnúmer 2103025Vakta málsnúmer

Lagður fram tölvupóstur yfirhafnarvarðar dags. 4. maí sl. og skýrsla Olíudreifingar dags. september 2020.

Í framlögðum tölvupósti kemur fram það mat yfirhafnarvarðar að best sé að halda óbreyttri staðsetningu á úrgangsolíutanki enda sé meginreglan sú að úrgangsolíutankar séu staðsettir í námunda við smábátahafnir. Einnig bendir yfirhafnarvörður á að bregðast þurfi við núverandi ástandi á úrgangsolíutanki, setja þurfi árekstrarvörn við hann og mála hann í samræmi við það sem kemur fram í framlagðri skýrslu Olíudreifingar.
Hafnarstjórn samþykkir óbreytta staðsetningu úrgangsolíutanks og felur yfirhafnarverði að vinna að þeim úrbótum sem hann leggur til og tilgreindar eru í framlagðri skýrslu.

11.Hafnafundur 2021

Málsnúmer 2103017Vakta málsnúmer

Lagt er fram fundarboð Hafnarsambands Íslands vegna 10. hafnarfundar sem haldinn verður í Hafnarfirði föstudaginn 21. maí nk.
Hafnarstjórn felur hafnarstjóra og formanni hafnarstjórnar að sækja fundinn sjái þeir sér það fært.

12.Móttaka á sorpi á hafnasvæðum.

Málsnúmer 2103018Vakta málsnúmer

Lagt er fram erindi Hafnasambands Íslands dags. 5. mars sl. Erindið varðar móttöku á sorpi á hafnarsvæðum. Í erindinu kemur fram að rík áhersla sé lögð á flokkun sorps og beinir sambandið því til hafnaryfirvalda um land allt að þau láti útbúa sorpmóttöku fyrir smærri skip og báta með þeim hætti að mögulegt sé að skila flokkuðu sorpi í aðskilin ílát á hafnarsvæðum. Í erindinu kemur jafnframt fram að sambandið muni beina þeim tilmælum til móttökuaðila sem annast þjónustu við skip á hafnarsvæðum að þeir bjóði upp á að taka við flokkuðu sorpi í aðskilin ílát/gáma og tryggi þannig að það verði almenn regla að öll skip og bátar skili flokkuðum úrgangi og farmleifum þegar þau koma að landi. Einnig er lagt fram vinnuskjal yfirhafnarvarðar hvar farið er yfir möguleika er varða móttöku flokkaðs sorps.
Hafnarstjórn þakkar erindi Hafnarsambands og felur yfirhafnarverði, í samvinnu við hafnarstjóra, að vinna tillögur að útfærslu hvað varðar sorpmóttöku fyrir smærri skip og báta með það að markmiði að þau geti skilað flokkuðu sorpi í hentug aðskilin ílát. Tillögur, sem skulu vera kostnaðarmetnar, skal leggja fyrir næsta fund hafnarstjórnar.

13.Ársreikningur Hafnasambands Íslands 2020

Málsnúmer 2103061Vakta málsnúmer

Lagður er fram til kynningar ársreikningur Hafnasambands Íslands fyrir árið 2020, samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga Hafnasambands Íslands skal stjórn samþykkja ársreikninga eftir að þeir hafa verið kynntir aðildarhöfnunum.
Lagt fram

14.Hafnarstjórn - Önnur mál 2021

Málsnúmer 2105006Vakta málsnúmer

1. Óskað er eftir því að ástand stiga og ljósa á bryggjum verði metið og niðurstaða verði lögð fyrir næsta fund hafnarstjórnar.
2. Farið yfir stöðu verkefnis sem snýr að uppsetningu myndavélakerfis. Staðan nú er sú að langt er komið að setja upp myndavélar og koma þeim í virkni, eftir er að ljúka frágangi, tæknivinnu og að gera myndir aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.
3. Spurt var hvort búið væri að skoða með viðgerð á þekju á norðurenda bryggju við brimvarnargarð á Ólafsfirði. Fram kom að svo væri ekki en málið væri í skoðun, ákveðið að meta og leggja niðurstöðu fyrir næsta fund.
4. Rætt var um mönnun vegna sumarleyfa.

15.Fundargerðir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga - 2021

Málsnúmer 2103015Vakta málsnúmer

Lagðar eru fram til kynningar fundargerðir 61. og 62. fundar stjórnar samtaka sjávarútvegssveitarfélaga.

16.Fundargerðir Hafnasambands Íslands - 2021

Málsnúmer 2101074Vakta málsnúmer

Lagðar eru fram til kynningar fundargerðir 432. og 433. funda stjórnar Hafnasambands Íslands
Lagt fram

Fundi slitið - kl. 17:15.