Matvælaeftirlit

Öll fyrirtæki sem framleiða (vinna, pakka og/eða matreiða) matvæli og dreifa (flytja, geyma, bjóða fram og afhenda, þ.m.t. selja) matvælum þurfa starfsleyfi heilbrigðisnefndar og heilbrigðiseftirlitið skal hafa eftirlit með þeim. Með eftirliti er átt við athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

Skoða skal meðferð matvælanna, almennt hreinlæti, athafnasvæði fyrirtækjanna, húsakynni, búnað, tæki og innréttingar, vatnsgæði, meðferð matarleifa og úrgangs og flutninga að og frá fyrirtækinu. Undir matvælaeftirlit heyrir einnig eftirlit með neysluvatni, með merkingu auglýsingu og kynningu matvæla, með merkingu næringagildis matvælanna, með aðskotaefnum í matvælum, með aukefnum í matvælum, með bragðefnum í matvælum og með ýmsum efnum sem ætlað er að snerta matvæli, s.s. plast- og leirílát, filmur úr sellulósa og vínýlklóríð. Ákvæði um þetta er að finna í reglugerð um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og fjölmargra sérreglugerða s.s. um neysluvatn, mjólk og mjólkurvörur, kjöt og kjötvörur og þannig mætti lengi telja.