Almennt heilbrigðiseftirlit

Fyrirtæki þar sem veitt er persónuleg þjónusta og getið er um í hollustuháttareglugerð nr. 941/2002 og leikvallareglugerð nr.942/2002 þurfa einnig starfsleyfi heilbrigðisnefndar og vera undir eftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna.

Eftirlit er haft með því að aðstæður í umhverfi okkar svo sem húsnæði og aðbúnaður sé í lagi þannig að ekki skapist heilsufarsleg áhætta. Hér eru því fyrst og fremst flokkuð ýmis þjónustufyrirtæki sem veita persónulega þjónustu. Nefna má gististaði, veitingastaði og aðra matsölustaði og er hér átt við aðbúnað gesta s.s. snyrtingar, loftræstingu, birtu og hávaða. Einnig eru tjald- og hjólhýsasvæði í þessum flokki, skólar, kennslustaðir og barnaheimili, þ.m.t. sumardvalarheimili, dagvistarheimili og gæsluvellir, en á slíkum stöðum eru slysavarnir veigamikill þáttur.

Þá eru í þessum flokki, rakarastofur, hárgreiðslustofur, hvers konar snyrtistofur og sólbaðsstofur, heilbrigðisstofnanir, hæli, heilsuræktar- og íþróttastöðvar og baðstaðir. Þá er ógetið fangelsa og annarra vistarvera handtekinna manna, samkomuhúsa, þ.m.t. kirkna og félagsheimila, kirkjugarða, líkhúsa og almennra samgöngutækja. Að lokum má nefna að heilbrigðiseftirlitið hefur eftirlit með íbúðarhúsnæði ef ætla má að þar séu eða geti skapast aðstæður sem eru hættulegar heilsu manna.

(Almennt heilbrigðiseftirlit kallast einnig hollustuháttaeftirlit).