Tilkynning vegna fréttar RÚV um Skíðasvæðið í Skarðsdal

Í hádegisfréttum RÚV og á vef miðilsins www.ruv.is, 11. mars 2024, er fjallað um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum undir fyrirsögninni „Hættumat aðeins klárt fyrir tvö skíðasvæði – Skarðsdalur uppfyllir ekki hættu viðmið“.

Fjallabyggð harmar að fréttamaður Fréttastofu RÚV hafi ekki leitað réttra upplýsinga um stöðu svæðisins áður en fréttin var birt. Drögin sem nefnd eru í fréttinni eru frá árinu 2011. Síðan þá hafa verið gerðar miklar og kostnaðarsamar úrbætur á svæðinu.

Í fréttinni, sem byggð er á hættumati Veðurstofu Íslands frá árinu 2011, er greint frá því að; „Neðsta skíðalyftan í Skarðsdal er á hættusvæði C vegna snjóflóða úr Illviðrishnjúki, sem og neðstu 50 metrarnir af T-lyftunni. Tilheyrandi safnsvæði, þ.e. raðasvæði, bílastæði og skíðaskáli, eru einnig á hættusvæði C. Þessi svæði standast því ekki viðmið í reglugerð nr. 636/2009 um hættumat á skíðasvæðum og rekstraraðila ber að gera áætlun um varanlegar úrbætur.“  Veðurstofa Íslands hefur ekki uppfært drög að hættumati frá þeim tíma.

Úrbætur sem gerðar hafa verið á skíðasvæðinu í Skarðsdal eru þess eðlis að allt skíðasvæðið er nú utan snjóflóðahættusvæðis. Lyftur hafa verið fjarlægðar eða styttar og safnasvæði, þ.e. raðasvæði, bílastæði og skíðaskálar færðir. Þá er daglegt snjóflóðaeftirlit með svæðinu og nágrenni þess allt til þess að tryggja öryggi þeirra sem þar fara um.

Framkvæmdir við færslu og breytingu á skíðasvæðinu hófust árið 2017 með opnun útboðs Vegagerðarinnar á lengingu Skarðsvegar ofar í fjallið. Þeim framkvæmdum lauk á síðasta ári að því undanskildu að slitlag mun verða lagt á veginn á þessu ári. Áður hafði skíðasvæðið verið rekið með undanþágu.

Fjallabyggð harmar að Fréttastofa RÚV hafi ekki leitað réttra upplýsinga um stöðu svæðisins áður en fréttin var birt. Frétt eins og sú sem sagt var frá getur haft verulega afleiðingar. 

Í 2.gr. Siðareglna Blaðamannafélags Íslands segir;

„Blaðamaður setur fram upplýsingar á heiðarlegan og sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að leita andstæðra sjónarmiða þegar við á. Blaðamaður hagræðir ekki staðreyndum og setur ekki fram órökstuddar ásakanir.“

Í 6. lið „Vinnureglna um fréttir og dagskrárefni tengt þeim á vef RÚVum „Hlutlægni og leiðréttingar“ segir;

„Fréttamenn og dagskrárgerðarmenn skulu gæta hlutlægni og sanngirni í störfum sínum.

Fréttamenn og dagskrárgerðarmenn taka ekki efnislega afstöðu til mála sem þeir fjalla um.

Gæta skal að því að afla upplýsinga frá fleiri hliðum en einni í umfjöllun mála. Í málum þar sem erfitt er að fá ólík sjónarmið fram, svo sem vegna þagnarskyldu, skal sýna sérstaka gætni við vinnslu fréttar.

Leitast skal við að leyfa ólíkum sjónarmiðum að koma fram á sambærilegum vettvangi, í sömu frétt, sama fréttatíma eða á vef RÚV.

Sé um að ræða alvarlegar ásakanir svo sem um refsiverða háttsemi verður að gefa viðkomandi möguleika til andsvara í sömu umfjöllun eða geta þess að frásagnar af hans sjónarmiðum sé að vænta, náist ekki í viðkomandi eða kjósi hann að tjá sig ekki.

Geri RÚV mistök og skýri rangt frá ber að leiðrétta það svo fljótt sem auðið er og biðjast velvirðingar á mistökunum. Ekki skal reyna að fela, breiða yfir eða draga úr mistökum eða rangfærslum.

Fjallabyggð fer fram á það að Fréttastofa RÚV leiðrétti áður birta frétt með réttum upplýsingum um núverandi stöðu Skíðasvæðisins í Skarðsdal. Þá er það áréttað að fréttamenn stofnunarinnar fylgi siðareglum Blaðamannafélags Íslands og Vinnureglum RÚV um fréttir og dagskrárefni tengt þeim.