Hreppsendasúlur

Vegalengd: 3 km (önnur leiðin)
Leið: Lágheiði - Hreppsendasúlur.
Mesta hæð: 1052 m
Göngutími 3 – 5 klst. (Báðar leiðir)

Ekki er svo hægt að fjalla um Lágheiði að ekki sé minnst á gönguleið á Hreppsendasúlur. Fjall þetta rís upp af Lágheiðinni í vesturátt, hátt og tignarlegt og frá Ólafsfjarðarkaupstað ber tvær súlur þess við himin og sjómenn nota fjallið mjög mikið sem staðsetningarmerki á fiskimið þegar verið er á veiðum úti af Ólafsfirði og er þá talað um að vera uppi á Súlum.

Súlurnar eru um 1052 m. háar og þegar gengið er á þær má velja um margar leiðir en sú besta er að ganga frá norðri eftir fjallsrana sem gengur út í áttina að Ólafsfjarðarkaupstað. Ágætt er að fara upp með Hreppsendaá að sunnan og ganga þannig í áttina að fjallinu. Land er þar mjög vel gróið sem annarstaðar á heiðinni. Þegar komið er upp að fjallinu er best að koma sér upp á fjallsöxlina og fylgja henni. Leiðin er ágætlega greiðfær og eftir því sem ofar dregur opnast útsýnið betur, við blasa austurfjöllin og Reykjaheiði, Klaufabrekknadalur og allur Ólafsfjörður. Þegar gengið er eftir fjallsegginni er gott útsýni yfir Hreppsendaárdal, lítið dalverpi skállaga og er auðveld leið upp dalinn og yfir í Fljót. Eftir um tveggja stunda gang er staðið á vestari súlunni en þar er varða og þaðan er útsýni undrafagurt.

Fljótin liggja fyrir fótum okkar og sér niður á bæina Þrasastaði (fremsta bæ í Fljótum) og Depla, einnig sést Stífluvatn með Skeiðsfossvirkjun. Niður við sjó sér í Miklavatn og í fjarska Haganesvík. Fjallasýn til allra átta er líka stórfengleg og vel sést hrikaleiki fjallgarðsins. Og ef vel er að gáð sjást fjöllin austanmegin í Svarfaðardal: Kotafjall, Skeiðsfjall, Búrfellshyrna og fleiri.