Fundargerðir

Til bakaPrenta
Félagsmálanefnd Fjallabyggðar - 132. fundur - 28. maí 2021.

Haldinn í fjarfundi,
28.05.2021 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Ingvar Ágúst Guðmundsson varaformaður, D lista,
Díana Lind Arnarsdóttir aðalmaður, D lista,
Hólmar Hákon Óðinsson aðalmaður, I lista,
Jón Kort Ólafsson aðalmaður, H lista,
Sæbjörg Ágústsdóttir formaður I lista,
Hjörtur Hjartarson deildarstjóri félagsmáladeildar.
Fundargerð ritaði: Hjörtur Hjartarson, félagsmálastjóri


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 2105034 - Heildarúttekt á heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma
Lagt fram erindi frá heilbrigðisráðuneytinu um heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Jafnframt verða skoðaðir möguleikar á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli. Lagt fram til kynningar. Félagsmálanefnd fagnar þessu þarfa framtaki ráðuneytisins.
 
2. 2105032 - Heildarendurskoðun á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir
Félags- og barnamálaráðherra hefur skipað starfshóp um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Starfshópinn skipa fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hagsmunasamtökum fatlaðs fólks og félagsmálaráðuneytinu.
Starfshópurinn hefur það hlutverk að endurskoða lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir í heild sinni og þær reglugerðir sem lögunum fylgja með áherslu á að greina þau álitaefni sem upp hafa komið við framkvæmd laganna og koma með tillögur til ráðherra ekki síðar en 30. september 2021. Einnig skulu önnur lög, reglugerðir og framkvæmd sem snýr að fötluðu fólki metin og endurskoðuð eftir þörfum. Deildarstjóri upplýsti nefndina um stöðu mála varðandi gagnaskil til starfshópsins.
 
3. 2103045 - Aukinn stuðningur við úrbætur í aðgengismálum fatlaðs fólks.
Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Öryrkjabandalagi Íslands þar sem sveitarfélög eru hvött til þess að ráða til sín námsmenn til sumarstarfa sem hafi það verkefni að vinna að aðgengismálum hjá sveitarfélögunum. Áherslan verði fyrst og fremst á manngert umhverfi, byggingar og útisvæði. Félagsmálanefnd samþykkir, fyrir sitt leyti að verkefnið verði leyst í samvinnu við Dalvíkurbyggð og Sumarátaksstörf námsmanna 2021.
 
4. 2101038 - Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna
Meginmarkmið frumvarpsins er að búa til umgjörð í lögum sem stuðlar að því að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Frumvarpið tekur til þjónustu sem er veitt innan alls skólakerfisins, þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sem er veitt í þágu barna innan sveitarfélaga, auk verkefna lögreglu. Aðrir sem vinna með börnum, til dæmis hjá íþrótta eða æskulýðsfélögum, bera líka skyldur og geta tekið þátt í samþættingu þjónustu.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að félags- og barnamálaráðherra beri ábyrgð á samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og hafi eftirlit með framkvæmd laganna. Samhliða frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna leggur félags og barnamálaráðherra fram tvö önnur frumvörp, annars vegar til laga um Barna- og fjölskyldustofu og hins vegar til laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
 
5. 2103031 - Aukið félagsstarf fullorðinna 2021 vegna COVID-19
Félagsmáladeild hefur sótt styrk fyrir fjölbreytt verkefni fyrir aukið félagsstarf fullorðinna í Fjallabyggð, sem ætlað er að bæta við þá dagskrá sem fyrir er.
Áhersla verður lögð á skemmtilegar ferðir þar sem söfn, vinnustofur listamanna, fyrirtæki, íþróttafélög og veitingastaðir í Fjallabyggð verða heimsótt. Jafnframt verður lögð áhersla á að kynna fyrir þátttakendum skipulagt félagsstarf aldraðra sem í boði er allan ársins hring.
 
6. 2105035 - Endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna fjárhagsaðstoðar við erlenda ríkisborgara
Ríkissjóður endurgreiðir sveitarfélögum fjárhagsaðstoð vegna aðstoðar við erlenda ríkisborgara, sem hafa átt lögheimili á Íslandi í tvö ár eða skemur eða eru án lögheimilis og í sérstökum aðstæðum hér á landi. Lagt fram til kynningar.
 
7. 2105036 - Félagsstarf fyrir fullorðið fatlað fólk sumarið 2021 vegna COVID-19
Félagsmáladeild hefur sótt um framlag til félagsmálaráðuneytisins til að auka stuðning við félagsstarf fyrir fullorðið fatlað fólk í sumar með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun og styðja einstaklinga til að takast á við afleiðingar COVID-19.
 
8. 2009052 - Íþrótta- og tómstundastyrkir til lágtekjuheimila vegna Covid-19
Félagsmálanefnd vekur athygli á að nú gildir sérstakur íþrótta- og tómstundastyrkur á sumarnámskeið. Börn sem koma af tekjulægri heimilum og eru fædd á árunum 2005-2014 geta fengið 45.000 krónur í sérstakan íþrótta- og tómstundarstyrk. Umsóknarfrestur er til 31. júlí 2021 - en hægt er að fá endurgreitt fyrir iðkun frá september 2020. Íbúar Fjallabyggðar sem fá jákvætt svar um rétt til styrksins sækja um í gegnum íbúagátt Fjallabyggðar.
 
9. 2105074 - Trúnaðarmál, félagsleg þjónusta
Erindi samþykkt.
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:00 

Til bakaPrenta