Sunnudagsveisla í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Mynd: Lydia Athanasopoulos
Mynd: Lydia Athanasopoulos

Sunnudaginn 10. okt. kl 14.00 opnar J Pasila sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina Ókunnugur. Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 - 17.00 til 24. október.
Þann sama dag kl. 15.30 verður Lydia Athanasopoulos með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki um rebetika sönghefð Grikklands. Athugið að erindið er á ensku. 

J Pasila segir um verkin á sýningunni.

Ókunnugur
Síðustu 18 mánuði hef ég varið tíma mínum í Zoom og FaceTime símtöl í leit að einhverskonar samveru – líkt og vinir mínir og kunningjar. Stundum hægði á sambandinu eða
nettengingin hökti. Skjámyndin fraus og varð þokukennd, eins og óljós vatnslitamynd. Ég fór að taka myndir af þessum augnablikum – tilgangslitlar tilraunir til að halda í tengingu sem var þá þegar næstum horfin, varla til staðar lengur. Andlitsmyndirnar bera með sér súrrealískan og í senn kvíðavænlegan blæ. Í stað þess að hinar stafrænu “samkomur” með á stvinum færðu mér félagsskap og samkennd juku þær á vanlíðan mína og einsemd.

Litirnir eru dempaðir; þokugráir og bleik- og blámóskulegir. Sums staðar birtast andlitin út úr dökkum bakgrunni. Ég prentaði upphaflega þessar myndir af vinum og fjölskyldufólki á
þunnan ljósritunarpappír sem er jafn léttur og hverfull og innihald myndanna og fellur vel að dulúð þeirra. Stærðirnar eru 20x20 sm og 90x117 sm. Samhliða má sjá myndaröð sem sýnir pixluð rýmin sem stóðu auð þegar fólk stóð upp og færði sig út úr myndrammanum. Sófapúðar, bókahillur og gluggatjöld birtast sem leiktjald á sviði sem bíður þess að einhver stígi á stokk.

Ferill
J Pasila hefur sýnt verk sín bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Í New York hafa sýningar hennar meðal annars farið fram í Plane Space Gallery, Momenta, og The Carriage Trade Gallery. Í Evrópu hefur hún sett upp sýningar í Apollohuis í Eindhoven Hollandi, Waterfront Gallery í Gent í Belgíu og á Siglufirði. Verk hennar voru valin af Robert Storr fyrir 44. National Chatauqa sýninguna á amerískri list. Þá hefur hún tekið þátt í sýningu “dust” ljósmyndasafnsins í Pompidou safninu í París frá október 2020 til mars 2021. Þá hefur J hlotið styrki og verðlaun frá Elizabeth Foundation, Sambandi íslenskra myndlistarmanna og Mustarinda félaginu í Finnlandi – og tvisvar dvalið í McDowell Colony, NH. J Pasila útskrifaðist frá Ontario College of Art í Toronto. Hélt áfram námi

í vídeolistadeild og arkitektúr við Listaháskólann í Dusseldorf. Á námsárum sínum í Þýskalandi stundaði hún rannsóknar- og þróunarvinnu með OMA, Christopher Alexander og CRATerre fyrirskapandi heimildarmyndina A sense of place. J dvelur ýmist í Brooklyn, New York, eða á Siglufirði.

Sunnudaginn 10. október kl. 15.30 verður fyrirlestur um rebetika sönghefð Grikklands. Erindið er hluti af fyrirlestrarröð sem nefnist Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Lydia Athanasopoulou, tónlistarblaðakona og þáttagerðakona fyrir útvarp, fer með okkur í ferðalag aftur í tíma að upphafi 20. aldar, og í hafnir Smyrna og Piraeus. Við munum heimsækja leynilega klúbba og reykkompur í fylgd ljósmynda, myndbanda og rispaðra fónógraf tóna, uppgötva rebétes, mághes og mórtisses. Við munum heyra þau syngja um ást, missi og undirheima, horfa á þau dansa sorgirnar af sér, og komast að því hvernig reykvafin tónlistar-undirmenning skilgreindi heila þjóð.


SSNE, Fjallabyggð og Aðalbakrí Siglufirði styðja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði