Sérstætt skólaverkefni í Grunnskóla Siglufjarðar

Í sjónvarpsfréttum í gær var sagt frá sérstæðu fuglamerkingarverkefni sem nemendur í 5. bekk Grunnskóla Siglufjarðar vinna í samvinnu við jafnaldra sína í Cork héraði á Írlandi. Rætt var við nokkur barnanna og kennara þeirra Guðnýju Robertsdóttur.  Upphaf þessa verkefnis má rekja til þess að hingað kemur hópur manna og kvenna frá Bretlandi í nokkra daga ár hvert til merkinga á jaðrakanaungum og hafa tekist ágæt kynni þeirra við nokkra Siglfirðinga.

Kennari vinabekkjarins í skólanum á Írlandi er mikill áhugamaður um náttúrufræði og fugla, þekkir þetta sama fólk. Þannig komust á kynni milli skólanna.

Jaðrakaninn sem er orðinn algengur sumarfugl á Siglufirði  hefur vetursetu m.a. á Suður Írlandi. Krakkarnir, eða strákarnir því að þetta er strákaskóli, fá upplýsingar um merkta jaðrakana og hver og einn nemandi tekur "fugl í fóstur", fær síðan upplýsingar um ferðir hans og merkir inn á kort. 
Krakkarnir hér á Siglufirði fara hins vegar fram á fjörð þegar fuglarnir koma í apríl til að reyna að sjá merkta fugla, og Sveinn og Steingrímur ljósmyndarar hafa tekið myndir af mörgum þeirra og látið kennarann vita af þeim. Því næst sendir kennarinn skeyti til Írlands um að þessi ákveðni fugl hafi sést hér og krakkarnir merkja upplýsingar um ferðir fuglsins inn á kort.

Fréttina í sjónvarpinu má sjá hér.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397854/15