Lífshlaup ÍSÍ - fimm vinnustaðir skráðir til leiks.

Nú eru aðeins tveir dagar þangað til Lífshlaup ÍSÍ verður ræst í sjöunda sinn. Markmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni hreyfingu í frítíma, heimilisstörfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.
Nú hafa fimm vinnustaðir í Fjallabyggð skráð sig til leiks; Grunnskóli Fjallabyggðar, Bæjarskrifstofur Fjallabyggðar, Leikskólinn Leikskálar, RSK Siglufirði og Apótekið.
Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega.  Starfsfólk bæjarskrifstofu, bókasafns og héraðsskjalasafns Fjallabyggðar hefur nú þegar skráð sig til leiks og skorar á starfsmenn annarra stofnanna Fjallabyggðar sem og annarra fyrirtækja í Fjallabyggð að gera slíkt hið sama. Undirbúningur er í fullum gangi og ætla starfsmenn ekkert að láta stoppa sig í þátttöku líkt og vísa frá Huldu Magnúsardóttur ber með sér:

Á fætur setjum hlaupaskó
ekkert okkur stoppar
í frosti, vindi, slyddu og snjó
við verðum svaka kroppar.

Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn www.lifshlaupid.is svo framarlega sem hún nær ráðleggingum Embætti landlæknis um hreyfingu en þar er börnum og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur á dag og fullorðnum í að minnsta kosti 30 mínútur á dag.
Vinnustaðakeppni Lífshlaupsins stendur frá 5. - 25. febrúar 2014 að báðum dögum meðtöldum.
Framlag hvers og eins telur. Í anda almenningsíþrótta er leikurinn byggður upp með það að markmiði að framlag hvers og eins telur, ef starfsmaður skráir einn dag þá telur það - Allt er betra en ekkert.

Allar nánari upplýsingar á heimasíðu Lífshlaupsins.