Lagt til að níu fulltrúar verði í sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags

Samstarfsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar gerir tillögu um níu fulltrúa í sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélag, en ekki sjö eins og lagt var til í skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri um sameiningu sveitarfélaganna. Í skýrslu RHA var lagt til að grunnskólarnir í Ólafsfirði og á Siglufirði verði sameinaðir í eina stofnun með einn skólastjóra og tvo aðstoðarskólastjóra. Samráðsnefnd telur ekki tímabært að taka þetta skref og leggur þess í stað til að fyrstu ár sameinaðs sveitarfélags verði nýtt til þess að samræma og skipuleggja skólahald í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi, með það að markmiði að eftir að Héðinsfjarðargöng verða opnuð verði rekstur grunnskólanna í Ólafsfirði og á Siglufirði sameinaður í eina stofnun undir einni stjórn.Í skýrslu RHA er lagt til “að ráðningarsamningum þar sem breytingar verða á fyrirkomulagi verði sagt upp þannig að hendur nýrrar sveitarstjórnar verði eins óbundnar og kostur er,” eins og orðrétt er sagt í skýrslunni. Samráðsnefnd tekur ekki undir þetta ákvæði í skýrslunni og leggur til að sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags staðfesti nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið og geri breytingar á starfsmannahaldi samkvæmt því.Í öllum meginatriðum gerir samráðsnefnd tillögur RHA að sínum, ef frá eru skilin framangreind atriði og verða þær kynntar í bæklingi sem verður dreift í hús í Ólafsfirði og á Siglufirði mánudaginn 23. janúar nk. Bæklinginn má sjá hér.Í bæklingnum kemur m.a. fram að samráðsnefnd leggur til að ef sveitarfélögin verða sameinuð verði efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á sameinað sveitarfélag og íbúar velji síðan nafn úr nokkrum tillögum samhliða sveitarstjórnarkosningum í maí nk.Samráðsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar efnir til kynningarfunda í næstu viku. Fundurinn á Siglufirði verður í Bíósalnum þriðjudaginn 24. janúar kl. 20 og í Tjarnarborg í Ólafsfirði miðvikudaginn 25. janúar kl. 20. Árshlutareikningur Ólafsfjarðarbæjar 30. september 2005Árshlutareikningur Siglufjarðarkaupstaðar 30. september 2005Samanlagðir árshlutareikningar Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar 30. september 2005