Jarðgöng á Austurlandi og Norðurlandi boðin út í tvennu lagi

Jarðgöng á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, annars vegar, og á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, hins vegar, verða ekki boðin út samtímis eins og til stóð. Útboðsgögn vegna Fáskrúðsfjarðarganga verða send til valdra verktaka í næstu viku en Tröllaskagagöng verða boðin út í febrúar.Fréttastofa Útvarps hafði eftir Sigríði Ingvarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins en hún á sæti í samgöngunefnd Alþingis, að Vegagerðin þurfi að afla frekari gagna um snjóflóð í Héðinsfirði áður en hægt verður að bjóða Tröllaskagajarðgöngin út. Gert er ráð fyrir að vinna við jarðgöng á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hefjist í apríllok árið 2003 og áætlað að gangagröfturinn taki eitt og hálft ár. Heildarkostnaður er áætlaður um 3,8 milljarðar króna og göngin eiga að vera tilbúin til notkunar á seinni hluta ársins 2005. Gerð Tröllaskagajarðganga á að hefjast 2004 og göngin eiga að verða tilbúin 2008. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við þau verði um 6,8 milljarðar króna. Frétt á local.is