Góðgerðavika og söfnun fyrir Samfestinginn

Nú stendur yfir Góðgerðavika hjá félagsmiðstöðinni Neon. Unglingarnir sem eru að fara á Samfestinginn um aðra helgi ganga í hús í kvöld miðvikudag og föstudagskvöld og biðla til bæjarbúa um hógværan styrk til ferðarinnar. Neon borgar rútu fyrir unglingana og sjálfir greiða þeir fyrir miðann á ballið. Fyrir uppihaldi, bíóferð og ferð í skemmtigarð safna þeir. 38 unglingar fara í ferðina sem er gríðarlega góð þátttaka. Neon sendir þrjá starfsmenn með en skylda er að senda einn starfsmann fyrir hverja 17 unglinga.

Góðgerðavikan sem nú stendur yfir gengur þannig fyrir sig að unglingarnir gera góðverk. Flesta ef ekki alla dagana eru unglingar í Samkaup Úrval búðunum að aðstoða og á Höllinni. Einnig fara unglingar á leikskólana og hjálpa til og lesa fyrir börnin. Þá eru unglingar að þvo glugga, taka þátt í félagsstarfi eldri borgara og sú skemmtilega uppákoma varð á mánudag þegar nokkrir drengir fóru í heimahús og sungu afmælissönginn fyrir tvö afmælisbörn.

Óhætt er að segja að líf og fjör fylgi unglingunum þessa vikuna eins og margar aðrar og eru uppátæki þeirra liður í skila góðum verkum til baka til samfélagsins í þakklætisskyni fyrir stuðninginn.