Fjórða Kjarval verkið komið í eigu Listasafns Fjallabyggðar

Jóhanna, Ingileif og Gíslína Arngrímsdætur með verkin þrjú.
Jóhanna, Ingileif og Gíslína Arngrímsdætur með verkin þrjú.
Formleg opnunarhátíð á Listasafni Fjallabyggðar í Ráðhúsinu á Siglufirði var í gær kl. 20:00. Boðið var uppá listfræðilega leiðsögn og léttar veitingar. Sigríður Gunnarsdóttir listfræðingur setti sýninguna upp. Langstærstur hluti safnsins eða 124 verk er gjöf hjónanna Bergþóru Jóelsdóttur og Arngríms Ingimundarsonar frá árinu 1980. Þau hjónin gáfu Siglufjarðarkaupstað verkin að gjöf þann 16. júní 1980. Að sögn Arngríms vildu þau hjónin sýna með málverkagjöfinni þakklæti fyrir þann stuðning sem Siglfirðingar veittu foreldrum hans á erfiðleikatímum þegar faðir hans veiktist og fjölskyldan fluttist úr Fljótunum til Siglufjarðar. Móðir hans muni oft hafa haft á orði að þann stuðning hafi þau aldrei geta launað Siglfirðingum.
Dætur Arngríms og Bergþóru þær Jóhanna, Ingileif og Gíslína, komu til opnunarinnar færandi hendi. Móðir þeirra er nú látin en faðir þeirra sendi Siglfirðingum kveðjur og afhenti safninu að gjöf þrjú glæsileg verk. Þetta eru verk eftir Eyjólf J. Eyfell, Hólshyrnan  frá árinu 1965, Sigurjón Jóhannesson frá árinu 1967 og verk eftir Kjarval frá árinu 1932. Verkið eftir Kjarval er fyrsta málverkið sem Bergþóra eignaðist og hafði hún fengið það að gjöf frá Kjarval sjálfum.
Boðið verður uppá  listfræðilega leiðsögn dagana 6., 7. og 8. febrúar frá kl. 15:00-17:00 í listasafninu.  Íbúar Fjallabyggðar eru hvattir til að nýta sér þetta einstaka tækifæri til að koma og sjá tímamótaverk í íslenskri myndlist og listasögu 20. aldarinnar eftir frægustu listamenn þjóðarinnar s.s. Kjarval, Þorvald Skúla, Nínu Tryggva, Svavar Guðna, Jón Engilberts, Kristján Davíðs, Erró o.fl.