Sundlaugum Fjallabyggðar lokað vegna Covid-19

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, að takmarka samkomur enn frekar en áður vegna hraðari útbreiðslu Covid-19 í samfélaginu. Viðburðir þar sem fólk kemur saman verða takmarkaðir við 20 manns í stað 100 áður. Við öll mannamót þarf auk þess að tryggja að nánd milli manna verði yfir tveimur metrum.

Sóttvarnalæknir hefur haft þessar aðgerðir til skoðunar síðustu daga, með hliðsjón af þróun mála hér á landi, tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og í ljósi aðgerða annarra ríkja. Ákvörðun heilbrigðisráðherra um frekari takmarkanir eins og sóttvarnalæknir leggur til á sér stoð í 12 gr. sóttvarnalaga.

Í ljósi þessa hefur verið tekin sú ákvörðun að loka sundlaugum á meðan á samkomubanni stendur. Íþróttamiðstöðvar Fjallabyggðar og þar með talið sundlaugar verða því lokaðar frá og með 23. mars. 2020.