Vikufréttir úr skólastarfinu föstudaginn 27. mars 2020

Vikufréttir úr leikskólastarfinu 27. mars.

Starfið í leikskólanum hefur gengið vel. Skipulagið sem var teiknað upp á einum skipulagsdegi í byrjun síðustu viku hefur haldið furðu vel og starfsfólk og börn hafa sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni og jákvæðni.  Eðlilega koma upp hnökrar sem eru sniðnir af jafnóðum og þeir uppgötvast og reynt að gera eins vel og unnt er við erfiðar aðstæður. Börnin eru glöð og sátt þó að þeim finnist sumar nýju reglurnar skrítnar.  Starfsfólkið er mjög hugmyndaríkt og hefur verið duglegt að finna verkefni og viðfangsefni fyrir börnin. Undarlegast finnst börnunum að vera ekki í neinum samskiptum við hinar deildirnar. Þau hafa þó aðlagast því mjög vel og láta nýjar aðstæður ekki trufla sig mikið. Eins og nærri má geta er starfið í leikskólanum svo mikið flóknara þegar gæta þarf ítrustu smitgátar í öllum samskiptum, leikfangakostur er sótthreinsaður alla daga eða geymdur í marga daga milli notkunar. Því er miklu minna af leikföngum og efnivið í notkun en venjulega.  Allir yfirborðsfletir eru sótthreinsaðir daglega og margir oft á dag.

Fram í miðja þessa viku var um helmingur barnanna á Leikskálum og innan við þriðjungur barnanna á Leikhólum. Foreldrar hafa verið mjög skilningsríkir að haft börnin sín heima þegar færi hefur gefist og eins hafa margir stytt daginn og komið aðeins fyrr að sækja. Fyrir það erum við mjög þakklát. Engin breyting hefur orðið á hvatningu til foreldrar sem þess eiga kost að hafa leikskólabörn heima. Það léttir á starfi leikskólans og tryggir minni skerðingu á starfi fyrir þá sem nauðsynlega þurfa á vistun að halda.

Nauðsynlegt er að hnykkja á mikilvægi þess að foreldrar gæti ítrustu varúðar þegar þeir kom með börn og sækja í leikskólann og eru foreldrar beðnir um að virða áðursendar leiðbeiningar um umgengni um innganga og fataklefa barnanna.

Vikufréttir úr grunnskólastarfinu 27. mars.

Starfið i grunnskólanum hefur verið að ganga vel þessa vikuna, framfarir í notkun snjalltækja og tæknilausna við kennslu eru á fleygiferð. Af unglingdeild er það að frétta að nemendur hafa verið fljótir að tileinka sér ný vinnubrögð. Þeir fá verkefni á Google Classroom og Moodle og eru að vinna í þeim verkefnum frá kl. 8:30 -12:00 alla virka daga. Verkefni nemenda eru fjölbreytt og þeim skilað á ýmsan hátt. Þar má nefna heimasíður, glærukynningar, myndbönd á Youtube og TikTok. Nemendur og foreldrar eiga hrós skilið fyrir jákvæðni, vinnusemi og aðlögunarhæfni þessar tvær vikur sem fjarkennslan hefur staðið yfir.  Grunnskólinn hefur sett vefsíðu í loftið sem ber nafnið “Námsfjallið” en hún inniheldur mikið námsefni í fjölbreyttu formi. Það er tilvalið að gefa sér tíma og skoða hvað þar er inni og hugsanlega munu kennarar vísa í efni þar fyrir nemendur á öllum aldri sem þegar taka nám sitt heima.

Yngri börnin una hag sínum vel í skólanum. Þau eru í minni hópum og er ekki hægt að greina annað en að þeim líði afar vel og séu sátt. Þau fá fjölbreytt verkefni og reynt að brjóta námið reglulega upp. Reynt er eftir fremsta megni að halda nemendum og hópum aðskildum – hver hópur á sína stofu, sína snyrtingu og inngang. Þeir blandast ekki í fríminútum og reynt er að passa handþvott og sprittun. Það vekur þó umhugsun að heyra má á nemendum að þeir eru stundum að leika með öðrum krökkum utan hópsins. Börn fara í sumum tilvikum burtu um helgar, heimsækja vini eða ættingja sem búa annars staðar og koma svo inn í hópinn sinn þegar þeir mæta í skóla. Mikilvægt er að foreldrar hafi það í huga að í skólanum geta verið viðkvæmir einstaklingar sem þurfa virkilega að fara varlega gangvart þessari veiru og því viljum við biðja foreldra að skoða vel þegar börnin eru komin í annað umhverfi hvernig staðan er þar og hverja þeir umgangast. Það er aldrei of varlega farið.

Á heimasíðu skólans undir “Hagnýtar upplýsingar” hefur verið settur upp upplýsingavefur fyrir foreldra vegna Covid-19.  Þar undir eru settar upplýsingar varðandi Covid-19 veiruna og snýr að nemendum, foreldrum eða starfsfólki.

Vikufréttir úr tónlistarskólastarfinu 27. mars.

Starfið í tónlistarskólanum hefur gengið vel þessa vikuna. Vikan hefur einkennst af því að kennarar taka nú tæknina æ meir inn í kennsluna. Flestir eru komnir í fjarkennslu að einhverju leyti eða öllu og hefur heilt yfir gengið mjög vel. Kennarar eru að nota Messenger, Teams, Zoom og Facetime. Ýmsir hnökrar koma upp sem tengjast nettengingum og flutningsgetu þeirra en allt er þetta yfirstíganlegt og von bráðar komið í gott horf. Kennarar eru að finna þær leiðir sem best henta hverjum og einum nemenda eftir því hvernig tónlistarnám viðkomandi nemandi stundar.  Tónfræðikennsla fer þannig fram að nemendum er sett fyrir heima og skila til síns kennara í gegnum fjarmiðla með myndum af verkefninu.

Vandkvæði við stillingar á hljóðfærum er leyst með að kenna nemendum á stafrænan tuner (tónstillir) . Það má því segja að allir séu að stíga út fyrir þægindarammann og eftir mun standa meiri þekking nemenda og kennara á stafrænar lausnir í kennslu sem gefa mun möguleika á fjölbreytilegri kennsluháttum en áður.