Ytra mat Leikskóla Fjallabyggðar

Í september 2017 var framkvæmt svokallað ytra mat á Leikskóla Fjallabyggðar.

Fjallbyggð hefur nú fengið matsskýrslu senda frá Menntamálastofnun. 

Matið var framkvæmt af Kolbrúnu Vigfúsdóttur og Sigrúnu Einarsdóttur og fór fram á vettvangi 25.-28. september 2017. Áður hafði farið fram gagnaöflun og undirbúningur. Teknir voru fyrir eftirfarandi matsþættir: Leikskólinn og umhverfi hans, stjórnun, uppeldis- og menntastarf, skólabragur og samskipti, foreldrasamstarf og ytri tengsl, sérfræðiþjónusta og sérkennsla og innra mat.

Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í leikskólum er samkvæmt 17. grein laga um leikskóla nr. 90/2008:

 • að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsmanna leikskóla, viðtökuskóla og foreldra
 • að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá leikskóla
 • að auka gæði náms og leikskólastarfs og stuðla að umbótum
 • að tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum

Með ytra mati er unnið að öllum þessum markmiðum og sérstök áhersla lögð á að efla og styðja innra mat og gæðastjórnun leikskóla, styðja við leikskólastjórnendur og leikskólakennara í umbótum á eigin starfi, hvetja leikskólakennara til að vinna saman að því að bæta eigin starfshætti og vera leikskólum hvati til frekari skólaþróunar. Grundvöllur ytra mats eru leiðbeiningar mennta- og menningarmálaráðuneytis um ytra mat leikskóla. Við matið eru notuð viðmið um gæðastarf á leikskólum, sem unnin hafa verið upp úr viðmiðum og vísbendingum fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs Reykjavíkurborgar. Viðmiðin eru byggð á lögum og reglugerðum um leikskólastarf og aðalnámskrá leikskóla og eru áherslur Kennarasambands Íslands hafðar til hliðsjónar.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur meðal annars fram að ytra mat með vettvangsathugunum, viðtölum og greiningu gagna í Leikskóla Fjallabyggðar leiði í ljós að í Fjallabyggð fer fram gott leikskólastarf sem er í góðu samræmi við áherslur í skólastefnu sveitarfélagsins. Að starfsmenn leggji metnað sinn í að vinna vel og skapa börnunum góð uppeldis- og þroskaskilyrði. Börnunum líði vel, eru sjálfsörugg og frjálsleg. Foreldrar séu almennt ánægðir með leikskólann og samskipti við stjórnendur og starfsmenn. Samstarf milli leikskólans og grunnskólans se gott sem og samstarf leikskólans við íþróttahús og tónskóla Fjallabyggðar. Gott samstarf sé við stofnanir í nærsamfélaginu.

Metnir voru eftirfarandi þættir í starfi Leikskóla Fjallabyggðar:

 • leikskólinn og umhverfi hans 
 • stjórnun, uppeldis- og menntastarf
 • mat á námi og velferð barna 
 • skólabragur og samskipti 
 • velferð og líðan barna 
 • foreldrasamvinna og ytri tengsl 
 • skóli án aðgreiningar, innra mat


Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér