Bæjarráð samþykkir tillögu að reglum fyrir úthlutun byggðakvóta

Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar í dag var samþykkt tillaga að reglum um úthlutun byggðakvóta á Siglufirði. Tillagan verður lögð fyrir Sjávarútvegsráðuneytið og er undir ráðuneyti komið hvort hún verður samþykkt eða ekki.Tillagan er eftirfarandi:1. gr.Reglur þessar eru settar á grundvelli reglugerðar nr. 596/2003 um úthlutun á 1.500 þorskígildislestum til stuðnings sjávarbyggðum.2. gr.Í samræmi við 3. gr. reglugerðar nr. 596/2003 skal skipta veiðiheimildum milli einstakra fiskibáta sem skráðir eru í Siglufirði. Skal úthluta til einstakra aflamarks- og krókaaflamarksbáta hlutfallslega miðað við heildaraflamark þeirra í botnfiski, í þorskígildum reiknað, miðað við úthlutun til þeirra á grundvelli aflahlutdeilda í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004. Við úthlutun skal heildaraflamark einstakra báta ekki aukast um meira en 100% miðað við úthlutun í upphafi fiskveiðiárs 2003/2004 og enginn bátur skal fá meira en 15 þorskígildistonn miðað við óslægðan fisk. 3. gr.Bátum sem úthlutað er byggðakvóta er skylt að leggja til þorskígildi að lágmarki til jafns við úthlutaðan byggðakvóta af eigin kvóta og skoðast móttekin umsókn sem staðfesting viðkomandi á því að það verði gert. Umsækjendum er heimilt að bjóða fram aukið hlutfall eigin kvóta en að ofan greinir og getur það haft áhrif á hlutfallslega úthlutun byggðakvótans til aukningar þrátt fyrir ákvæði 2. gr.4. gr.Afla samkvæmt 2. gr. og 3. gr. er skylt að landa til vinnslu í Siglufirði. Skal umsókn um byggðakvóta fylgja undirrituð staðfesting fiskverkunar um móttöku aflans til vinnslu. Öllum afla samkvæmt þessari grein skal aflað fyrir lok fiskveiðiársins.5. gr.Úthlutaður byggðakvóti er ekki framseljanlegur. Selji bátaeigendur eða leigja frá sér eigin kvóta á því fiskveiðiári sem þeir fengu úthlutað byggðakvóta skulu þeir skila úthlutuðum byggðakvóta í sambærilegu magni. Þeim kvóta sem þannig verður skilað inn skal þá úthluta að nýju.6. gr.Í lok fiskveiðiárs skulu þeir bátaeigendur sem fengu úthlutað byggðakvóta skila til sveitarfélagsins skýrslu um landaðan afla til vinnslu í því fiskverkunarfyrirtæki sem þeir tilgreindu sem samstarfsaðila og skal skýrslan staðfest af viðkomandi fiskverkun. Verði skýrslu ekki skilað eða ákvæðum reglna þessara um löndun afla til vinnslu í Siglufirði verði ekki fullnægt skulu viðkomandi bátar ekki eiga rétt á úthlutun byggðakvóta komi til nýrrar úthlutunar á nýju fiskveiðiári.Ef Sjávarútvegsráðuneyti staðfestir reglurnar verður auglýst eftir umsóknum innan skamms.