Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2011

Bergþór Morthens bæjarlistamaður 2010 (til vinstri)
Bergþór Morthens bæjarlistamaður 2010 (til vinstri)
Menningarnefnd Fjallabyggðar auglýsir eftir umsóknum og /eða rökstuddum ábendingum um bæjarlistamann Fjallabyggðar 2011

Nafnbótin bæjarlistamaður getur hlotnast einstökum listamönnum eða kórum og leikfélögum.

 

Markmiðið með því að tilnefna bæjarlistamann ár hvert er að hvetja og auka áhuga á listsköpun og bæta menningarlíf íbúa. Um leið er það viðurkenning bæjaryfirvalda að sköpun og list skipti samfélagið máli. Slík nafnbót er auglýsing á listamanninum og sveitarfélaginu. Styrkur til bæjarlistamanns 2011 nemur kr. 150.000 til einstaklings og kr. 250.000 til hóps.

Umsóknir skulu berast fyrir 2. febrúar 2011 til Karítasar Skarphéðinsdóttur Neff, fræðslu- og menningarfulltrúa, Ólafsvegi 4, 625, Ólafsfirði, sími 464 9200.

Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns má finna á heimasíðu Fjallabyggðar og eru listamenn hvattir til að kynna sér þær.

Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Fjallabyggðar 

1.gr.
Menningarnefnd Fjallabyggðar veitir listamanni í Fjallabyggð nafnbótina ,,Bæjarlistamaður Fjallabyggðar", ásamt styrk til eins árs. Aðeins þeir listamenn sem búsettir hafa verið í Fjallabyggð að minnsta kosti um tveggja ára skeið koma til greina.  Nafnbótin getur hvort sem er hlotnast einstaklingum eða hópi.

2. gr.
Styrkurinn  skal vera ákveðin upphæð á ári samkvæmt fjárhagsáætlun.  Upphæð styrks skal koma fram þegar auglýst er eftir bæjarlistamanni.
                                                           
3. gr.
Menningarnefnd auglýsir eftir umsóknum og/eða óskar eftir rökstuddum ábendingum um bæjarlistamann, en er þó ekki bundin af því. Auglýst skal í bæjarblöðum og á heimasíðu Fjallabyggðar fyrir 25. nóvember ár hvert. Ákvörðun um bæjarlistamann er tekin af menningarnefnd ásamt óháðum fagaðila.

4. gr.
Í umsókn listamanns skal koma fram á hvern hátt hann hugsi sér að láta  sveitarfélagið og íbúa þess njóta listar sinnar. Það getur t.d. verið  með sýningar- eða tónleikahaldi, samstarfi við félög bæjarins og skóla, eldri borgara og/eða aðra listamenn í sveitarfélaginu í samráði við menningarfulltrúa. Í lok árs skal bæjarlistamaður gera menningarnefnd stuttlega grein fyrir því hvernig til hefur tekist,  með greinargerð.

5.gr.
Bæjarlistamaður er tilnefndur í upphafi árs út almanaksárið. Menningarnefnd mælist til þess að "Bæjarlistamaður Fjallabyggðar" láti nafnbótina koma fram sem víðast. 

6.  gr.
Gera skal skriflegan samning við bæjarlistamann.

7. gr.
Reglur þessar taka gildi við samþykkt þeirra í bæjarstjórn.

Samþykkt á 44. fundi bæjarstjórnar 15. desember 2009