Þjónustusamningur milli félagsmálaráðuneytis og SSNV

Nýr þjónustusamningur milli félagsmálaráðuneytis og Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra – málefni fatlaðra (SSNV málefni fatlaðra) var undirritaður þriðjudaginn 19. desember 2006 kl. 16:00 á Löngumýri í Skagafirði.Samningurinn er gerður til 6 ára, frá 1. janúar 2007 til 31. desember 2012. Félagsmálaráðuneytið skuldbindur sig til að leggja u.þ.b. 1.900 milljónir króna til verkefnisins á þeim tíma. Samtök sveitarfélaga taka að sér að veita fötluðum börnum og fullorðnum á starfssvæði sínu þá þjónustu sem er á ábyrgð ríkisins samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra.Umsjón og framkvæmd samningsins verður í höndum SSNV málefna fatlaðra. Verkefnisstjóri er Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir.Með samningnum ákveða félagsmálaráðuneytið og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra ( SSNV málefni fatlaðra ) að halda áfram því mikilvæga samstarfi sem hófst í apríl 1999. Meginmarkmið samningsins er að samþætta þjónustu við fatlaða í heimabyggð og fella hana eins og framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila; færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni. Þetta er gert með meiri skilvirkni, betri nýtingu fjármuna og auknum þjónustugæðum að leiðarljósi.Samhliða undirritun kynnti félagsmálaráðuneytið ný drög að stefnu í þjónustu við fötluð börn og fullorðna 2007 – 2016.