Þjóðlagasetur

Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði

Í Þjóðlagasetrinu eru íslensk þjóðlög kynnt á aðgengilegan og skemmtilegan hátt. Þar er boðið upp á myndbönd af fólki á öllum aldri sem syngur, kveður eða leikur á hljóðfæri. Einnig er sagt frá þjóðlagasöfnun sr. Bjarna Þorsteinssonar, greint frá heimildarmönnum hans og mörgum þeim sem aðstoðuðu hann við söfnunina víða um land. Loks eru á sýningunni munir úr eigu þeirra sr. Bjarna og Sigríðar Blöndal konu hans.

Í Þjóðlagasetri má sjá sýnishorn af handritum sr. Bjarna, bæði þjóðlög og eigin tónsmíðar. Þar eru hljóðfæri sýnd og almennur fróðleikur settur fram á lifandi hátt. Setrið hyggst gangast fyrir gerð námsefnis um íslenskan tónlistararf fyrir grunn- og framhaldsskóla, stuðla að rannsóknum á þjóðlagaarfinum og standa að námskeiðum um íslenska tónlist.

Ár hvert er haldin þjóðlagahátíð.  Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er alhliða tónlistarhátíð með rót sína í þjóðlagaarfinum. Á hátíðinni hefur tónlist fjölmargra þjóða verið kynnt auk þess sem íslensk þjóðlög sitja ætíð í öndvegi.  Þjóðlagahátíðin stendur frá miðvikudegi til sunnudags fyrstu heilu vikuna í júlí. Auk tónleika er boðið upp á fjölmörg námskeið, bæði í tónlist og handverki, gömlu og nýju. Þá er börnum þátttakenda boðið upp á ókeypis námskeið í leiklist og tónlist.

Þjóðlagahátíðin vann Eyrarrósina árið 2005, menningarverðlaun Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands, fyrir framúrskarandi menningarstarf á landsbyggðinni.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar frá upphafi hefur verið Gunnsteinn Ólafsson, tónlistarmaður.

 

Heimasíða Þjóðlagaseturs

Heimasíða Þjóðlagahátíðar