Skeggjabrekkudalur

Skeggjabrekkudalur er nokkuð langur; hann liggur frá norðaustri til suðvesturs. Dalurinn er mjög grösugur og eitt allra vinsælasta útivistarsvæði Ólafsfirðinga, enda var hann gerður að friðlýstum fólkvangi 1984 í tilefni af hundrað ára byggð í Horninu, en þar stendur kaupstaðurinn nú. Dalurinn er gróinn víða upp á fjallstoppa. Mest ber á allskonar lynggróðri í neðanverðum dalnum og einstaka birkihrísla sést, en vegna snjóþunga skríður þessi gróður með jörðu. Berjaspretta er oft góð í dalnum og þá aðallega aðalbláber og krækiber og sækir fólk mikið þangað til útiveru, enda eru gönguleiðir um dalinn auðveldar.

Raunar skiptist dalurinn í tvennt og er sá hluti sem er vestan við á kallaður Skeggjabrekkudalur en austurhlutinn Garðsdalur. Tveir sveitarbæir standa hvor sínumegin við ána rétt áður en hún fellur í Ólafsfjarðarvatn; heitir sá sem er norðan við ána Skeggjabrekka og stendur á hól sem blasir við frá kaupstaðnum. Þar er mjög fagurt útsýni á góðviðrisdögum. Í landi Skeggjabrekku er nú golfvöllur Ólafsfirðinga. Sunnan við ána stendur bærinn Garður og er áin við hann kennd. Garðsá var virkjuð árið 1942 og var lengivel eina raforkuverið sem veitti Ólafsfirðingum orku, en með tilkomu Skeiðfossvirkjunar í Fljótum var lögð lína yfir Lágheiði og síðar með hringtengingu landsins um Dranga frá Dalvík. Virkjunin var í eigu Ólafsfjarðarkaupstaðar en síðar seld Rafmagnsveitum ríkisins sem nú starfrækja hana.

Árið 1944 er ráðist í það stórvirki að bora eftir heitu vatni en á Skeggjabrekkudal voru heitar lindir. Tilraunin gekk vel og nægt vatn fékkst til að hita upp öll hús á Ólafsfirði og mun Ólafsfjörður vera fyrsti kaupstaður á landinu þar sem öll hús voru hituð upp með jarðvarma. Dugði þetta fram til ársins 1974 er ný hola var tekin í notkun í Ósbrekkulandi um hálfan kílómeter frá kaupstaðnum. Dalurinn afmarkast af Ósbrekkufjalli að vestan og Garðshyrnu að austan. Dalurinn blasir allur við frá Ólafsfjarðarkaupstað. Um miðjan dalinn hefur skriðufall stíflað hann en áin síðan brotið sér leið í gegn. Skriða þessi er í daglegu tali nefnd Hólar. Þegar komið er fram fyrir Hóla er oft mikil veðursæld. Hólarnir skýla vel fyrir hafgolunni sem er iðulega mikil á heitum dögum og þar er því oft logn og hiti á sólríkum dögum og er þar graslendi nokkurt.

Á vetrum er dalurinn sannkölluð paradís fyrir gönguskíðafólk og þegar sól hækkar á lofti er oft margt um manninn á dalnum. Þá er hann mikið farinn af vélsleðamönnum, enda auðveld leið hvort heldur er í Héðinsfjörð eða Siglufjörð.