Múlakolla

Vegalengd: 4.0 km (önnur leiðin)
Leið: Brimnesá  - Gvendarskál  - Múlakolla.
Mesta hæð: 970 m
Göngutími 4 - 5 klst. (Báðar leiðir)

Er við nálgumst kaupstaðinn opnast fjörðurinn betur og þegar komið er heim undir á, sem ber nafnið Brimnesá, er á vinstri hönd gönguleið sem ekki margir fara, en það er ganga á hæsta hluta Múlans sem nefnist Múlakolla í 984 m. hæð. Ekki verður sagt að þessi leið sé vandrötuð en halda má sem leið liggur upp fjallið og stöðugt blasir kollan við. Besta leiðin er að ganga beint upp frá veginum upp norðan við Brimnesá.

Á hægri hönd er nú Brimnesdalur stuttur og hrjóstrugur, umlukinn fjöllum sem mörg eru yfir 1000 m. Á hægri hönd er Tindaöxl en svo nefnist fjallið ofan við Ólafsfjarðarkaupstað, og fyrir dalbotninum eitt hæsta fjall Ólafsfjarðar, Kerahnjúkur sem skagar upp í 1098 m. Af tindi Kerahnjúks er stórfenglegt útsýni en ekki ætti nema vant fjallafólk að klífa tindinn. Gengið er á Kerahnjúk upp frá kaupstaðnum og fyrst upp á Tindaöxl. En áfram skal haldið á Múlakollu, þá mætir okkur allbrattur hjalli vel gróinn og þegar upp á hann er komið er gott að staldra við því gott útsýni er af brúninni yfir Ólafsfjörð.

Fyrir ofan þessa brún tekur við ofurlítil lægð. Oft eru þarna vatnspollar sem hitna af sólarljósinu og voru þeir vinsælir af unglingum sem gjarnan fóru þangað í útilegur á sumrin. Við erum nú í litlu dalverpi, á vinstri hönd er Múlinn og á hægri hönd er Kistufell, 1078 m. Við göngum þannig að við höldum okkur hægramegin og nær Kistufelli.

Framundan er nú brattasti hluti leiðarinnar upp í skál sem nefnist Gvendarskál; skál þessi er oftast full af snjó. Þegar gengið er upp í Gvendarskál er hægt að velja um tvær leiðir. Önnur er sú að ganga beint upp brattann en hann er mjög laus í sér og stórgrýttur, enda féllu þarna stórar skriður haustið 1988 og runnu alveg í sjó fram. Auðveldari leið er að fara hægramegin við skriðuna og ganga á snjó upp í Gvendarskál, sú leið er greiðfær. Þegar brúnum skálarinnar er náð er gengið eftir ölduhryggjum til norðausturs í áttina að Múlakollu og er þessi hluti leiðarinnar mjög auðveldur göngu.

Af Múlakollu er útsýni stórkostlegt og sést vítt um fjöll og dali. Fyrir fótum okkar liggja Ólafsfjörður og Eyjafjörður; ef skyggni er gott má sjá reykina á Námaskarði liðast til himins.

Efst á Múlakollu hefur einkaaðili í Ólafsfirði reist endurvarpsstöð sem tekur við sjónvarpssendingum að sunnan. Ganga má frá endurvarpsstöðinni í átt að Kistufelli og eftir eggjum Kistufells. Á Múlakollu er um tveggja til tveggja og hálfs tíma gangur en vanir fjallamenn ganga upp á einum og hálfum tíma.