Hvanndalabjarg / Hvanndalir

Hvanndalir
Hrikabjörgin vestan Ólafsfjarðar eru mjög tilkomumikil að sjá þegar farið er veginn um Ólafsfjarðarmúla. Þar heita þau hæstu Arnfinnsfjall (854 m) og Hvanndalabjörg (755 m), þverhnípt standberg í sjó fram vestan við Ólafsfjörð, en að austan "teygir hinn myrki múli fram, minnist við boðaföllin" eins og prófessor Jón Helgason orðaði það. Norðan undir Hvanndalabjargi eru Hvanndalir og norðan þeirra Hvanndalabyrða (625 m) og Hvanndalaskriður sæbrattar en þó færar fyrir gangandi menn við góð skilyrði. Háir sjávarbakkar eru fram undan dölunum, tæpar lendingar og uppsátur örðugt. Um Víkurbyrðu, sem liggur bak við eða vestan við Hvanndali, er leið yfir í Héðinsfjörð til Víkurdals.

Hvanndalir eru þrjú daladrög. Yst er Hvanndalur, út úr honum að sunnan er lítið dalhvolf sem nefnt er Selskál og syðst Sýrdalur sem er grynnstur, aðeins slakki niður á bak við Hvanndalabjörg. Milli Sýrdals og Hvanndals er lágur fjallsrani sem heitir Hádegisfjall og sunnan við Selskál gnæfir hvassbrýndur hamratindur sem heitir Miðdegisfjall eða Miðdegishyrna.

Hádegisfjall er nyrsti hluti Hvanndalabjargs. Vestast í því við efri enda Sýrdals er lítil gjá eða einskonar hlið sem farið er um úr aðaldalnum. Þar var fyrir óralöngu gerður lítill grjótgarður sem lokaði alveg fyrir þennan hömrum girta dal. Þar voru áður fyrr meðan ennþá var byggð í Hvanndölum geymd fráfærnalömbin og var þetta því einskonar afréttur og litli grjótgarðurinn einskonar afréttargirðing, líklega sú stysta á landinu. Í Jarðabók Árna og Páls segir um Hvanndali að nokkrir segi "það hafi að fornu heitið Fanndalir". Inni í slíkum fjallasal safnast miklar fannir að vetri til en fram á bökkunum var snjólétt og þarna eru annáluð landgæði fyrir sauðfé.

Í Hvanndölum er staður sem heitir Ódáinsakur. Þar voru talin vaxa lífgrös og sá sem þeirra neytti gat ekki dáið. Stóð áður bær hjá Ódáinsakri en hann lagðist í auðn og var fluttur á annan stað vegna þess að menn töldu seig ekki geta búið við slík örlög.

Hvanndalir eru mjög einangraður útkjálki. Stopul byggð var þar og flestir sem þar bjuggu voru aðeins fá ár í senn. Var því býli þetta oft í eyði svo árum og áratugum skipti. Árið 1896 keypti hreppsnefnd Hvanneyrarhrepps jörð þessa af bóndanum í Hvanndölum til þess að útiloka mannabyggð þar. Um áratug síðar var jörðin seld bónda í Ólafsfirði. Fyrr á árum notuðu Ólafsfirðingar Hvanndali til heyskapar og var þá legið þar við í tjöldum á meðan á heyskap stóð. Erfitt hefur sennilega oft verið að flytja heyið þaðan en þarna er ákaflega grösugt.

Þar sem Hvanndalir eru fyrir opnu hafi og háir klettabakkar eru framundan þeim er hætta á sjóslysum þar þegar veður breytist snögglega. Enda hafa slys orðið þar, bæði við setningu og lendingu báta. Átakanlegt sjóslys varð í svokölluðum Sýrdalsvogum árið 1783 er þrír bátar fórust þar og af þeim ellefu sjómenn. Var það vegna skyndilegs ofveðurs sem skall á er þeir voru við veiðar undir bjarginu. Þarna er mjög brimasamt ef eitthvað er að veðri. Nú er í Hvanndölum björgunarskýli Slysavarnafélags Íslands, þeim til bjargar sem lenda í hrakningum þarna svo langt frá mannabyggðum.

Hvanndalabjörg
Af hamrafjöllum Hvanndala er víð útsýn austur með Norðurlandi, alla leið til Melrakkasléttu, og Látraströnd austan Eyjafjarðar blasir við. Til norðurs sér út yfir Grímseyjarsund og til Grímseyjar. Inn til landsins taka við óreglulegar fjallastrýtur og klettahryggir með hjarnfönnum. Er þetta allt hið hrikalegasta landslag sem virðist vera ógreiðfært í hæsta máta og ekki árennilegt, og varla öðrum fært en fuglinum fljúgandi eins og sagt var í ævintýrunum. Eitthvað verða menn þó að fara um þetta svæði vegna fjárleita.

Í Hvanndalabjörgum er sagt að sé mikil tröllabyggð:

Rísa þar gegn norðrinu risalegfjöll.
Hvergi eru meiri og magnaðri tröll.

Svo segir Jón Trausti í kvæðinu Konan í Hvanndalabjörgum sem hann orti eftir þjóðsögu um konu er hvarf í Hvanndalabjörg frá bónda sínum í Málmey á Skagafirði. Saga þessi er til í fleiri en einni gerð, en hér verður rifjað upp aðalefni sögunnar í þeirri gerð sem skáldið notar.

Maður konunnar hét Jón, bjuggu þau í Málmey og hvarf konan frá honum aðfararkvöld jóla. Leitaði þá Jón bóndi til prests síns, séra Hálfdanar Narfasonar (d. 1568) á Felli í Sléttuhlíð, til þess að hafa uppi á konunni. Varð úr að séra Hálfdan reið láð og lög með Jón bónda fyrir aftan sig og segir svo frá för þeirra í Þjóðsögum Jóns Árnasonar:

Nú halda þeir áfram fyrir framan Siglufjörð og Siglunes og svo fyrir framan Héðinsfjörð, uns þeir koma að Hvanndalabjargi vestan við Ólafsfjörð. Þar nemur prestur loks staðar framan undir bjarginu. Er þar að sjá einsog stór hurð í bjarginu; lýkst hún upp og koma þar út tvær tröllkonur, mjög stórar og allar helbláar; leiða þær milli sín þriðju tröllkonuna, sem er nokkru minni, en öll líka helblá, nema hvítur kross í enni. . . . "Þarna sérðu konuna þína, Jón," segir prestur. (III. S. 534-535)

Í Hvanndölum voru bræður þrír á dögum Guðbrands biskups Þorlákssonar. Þeir voru "knálegir menn, og kunnu vel til á sjó, sterkir og hugaðir vel" einsog segir í Árbókum Espólíns. Biskupinn fékk þá árið 1580 til að leita Kolbeinseyjar því hann taldi að einhverjar nytjar mætti af henni hafa. Frá för þeirra Hvanndalabræðra segir í Kolbeinseyjarvísum sem séra Jón Einarsson orti 1665 og prentaðar eru í ritinu Blöndu (I). Bræðurnir komust til Kolbeinseyjar í þriðju tilraun, fermdu skip sitt af fiski, eggjum og fugli; höfðu með sér til biskups langvíu, geirfugl og fýl.