Sýningaropnun "Íslandslag og furðufiskar" - Pía Rakel Sverrisdóttir sýnir í Söluturninum

Pía Rakel Sverrisdóttir opnar sýninu sína "Íslandslag og furðufiskar" í Söluturninum við Aðalgötu á Siglufirði. Sýningin verður opnuð laugardaginn 25. júlí kl. 15:00 - 18:00 og stendur til 3. ágúst.

Pía Rakel hefur tekið þátt í mörgum sýningum bæði hérlendis og erlendis.  Hún starfaði við hönnun og unika í 4 ár hjá Holmegårds Glassworks  og var gestakennari í Kaupmannahöfn,  Kolding Hönnunarskólum, auk nokkurra lýðháskóla í Danmörku. Vegna náms hennar í arkitektúr hefur hún mikinn áhuga á að vinna glerið og rýmið saman. Hún hefur gert fjölda skreytingarverkefna bæði fyrir einkaaðila og opinberar byggingar m.a. í samstarfi við arkitekta.

Meðal stórra verkefna er Velux Glerverksmiðjurnar, sem eru staðsettar um allan heim. Pía hefur gert sjálfstæðar glermyndir fyrir Velux glerverksmiðjurnar sem staðsettar eru í mörgum löndum síðustu 20 árin. Má þar m.a. nefna Ástralíu, Rússland, Kína, mörg Evrópulönd og Kanada.

Pía var með verkstæði í um 25 ár við ströndina á Amager í gamalli verksmiðjubyggingu. Síðustu ár hefur hún einnig verið með vinnustofu og heimili við Meðalfellsvatn og nú einnig á Siglufirði. Eins og farfuglinn, fer hún á milli staða. Pía segist verða að koma til Íslands reglulega til að hlaða batteríin í nálægð við náttúruna.

Áhrifa íslenskrar náttúru er oft að gæta í verkum Píu eins og jöklar, vatn, ís ásamt geometriskum formum og mytologiskum táknum úr norrænu sagnafræðinni.

Nýlega var sett upp sandblásið gerlistaverk „STREYMI“ eftir Píu í anddyri Veiðihúss Veiðifélags Kjósarhrepps, við Laxá í Kjós en verkið lýsir ferli laxins frá vatni til sjávar.                   

www.ARCTICGLASS.dk