Segull 67 - Út um allt: Kristjana Stefáns og Svavar Knútur

Bonnie og Clyde íslenska söngvaskáldabransans, þau Svavar Knútur og Kristjana Stefáns hyggjast þeysast um landið í júlí næstkomandi á sinni árlegu sumartónleikaferð.
Kristjana og Svavar Knútur munu á ferð sinni heimsækja alla helstu landsfjórðungana og kynda undir sumarfiðringi landans með húmor og hlýju, krúttlegum kvöldsöngvum, angurværum Abbalögum og sígildum söngperlum. Þá munu sagðar sögur, lesin ljóð og klassísk íslensk kvöldvökustemmning höfð í hávegum.
Þá er auðvitað ekki annað við hæfi en að koma við á Siglufirði, þar sem Svavar Knútur á frændfólk í hverju húsi og taka kvöldvökustemmningu á nýjustu viðbótinni við gæðaflóru Siglufjarðar, Segli 67 Brugghúsi.

Kristjana og Svavar hafa síðan 2008 haft unun af því að syngja saman dúetta og komið fram víða um land við gríðargóðar undirtektir. Þau gáfu út dúettaplötuna Glæður árið 2011 sem er löngu uppseld hjá útgefanda.

Miðaverð er kr. 4.000 og frítt fyrir börn 14 ára og yngri