Alexander Edelstein heldur píanótónleika í Siglufjarðarkirkju Sunnudaginn 12. júlí klukkan 17:00.
Á dagskrá eru ný og nýleg verk norðlenskra tónskálda, Atla Örvarssonar, Daníels Þorsteinssonar og Jóns Hlöðvers Áskelssonar ásamt verkum eftir Schumann og Schubert. Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra - Eyþingi.
Aðgangur er ókeypis en tekið við frjálsum framlögum.
Alexander Smári Kristjánsson Edelstein er fæddur 15. maí 1998. Hann stundaði píanónám hjá Þórarni Stefánssyni við Tónlistarskólann á Akureyri frá 2009 til 2017. Alexander hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir spilamennsku sína en hann hlaut meðal annars fyrstu verðlaun í píanókeppni EPTA árið 2012 og sérstök verðlaun sem einleikar í Nótunni sama ár. Alexander hefur haldið þónokkra einleikstónleika og komið fram á ýmsum viðburðum sem einleikari. Þar má meðal annars nefna tónleika í Hofi í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarfélags Akureyrar og einleik á Kirkjulistaviku Akureyrar. Alexander spilaði á tvennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands um páskana 2019 þar sem hann lék píanókonsert no. 20 eftir Mozart, fyrst í Hofi og síðar í Langholtskirkju.
Alexander stundar nú nám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peter Máté og lýkur því vorið 2021. Á komandi hausti fer hann til skiptináms við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi, en lýkur prófi hér heima. Síðan stefnir hann á framhaldsnám erlendis.