Ívar Valgarðsson "Samasem" í Kompunni

Sunnudaginn 6. júní kl. 14.00 opnar Ívar Valgarðsson innsetningu í Kompunni Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 - 17.00 til 26. júní og athugið að enn er tveggja metra reglan í gildi og grímuskylda í Alþýðuhúsinu.


Ívar Valgarðsson

Ívar Valgarðsson (f. 1954) býr og starfar í Reykjavík. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og framhaldsnám í Haag í Hollandi, þaðan sem hann lauk námi 1979. Hann á að baki fjölda samsýninga og á annan tug einkasýninga.

Myndlist Ívars er staðsett í ákveðnu, efnislegu rými. Hún er sprottin upp úr því umhverfi sem hún er sett fram í og er um leið viðbót við það sama umhverfi. Ef verk er á vegg þá er veggurinn orðinn eðlilegur hluti verksins og öfugt.
Ívar notar gjarnan iðnaðarefni og með nálgun sinni veltir hann upp hugleiðingum um efni, rými og tíma verkanna.

Verk Ívars eru jafnframt samtal við listasöguna; setja fram spurningar um listhefðina og hlutverk listarinnar. Ein af þeim spurningum sem vakna í þessu samhengi er hvort listin og lífið séu eitt, eða leitar listin fyrst og fremst úrlausna á forsendum listarinnar sjálfrar. Í Ívars tilviki er svarið já í báðum tilvikum. List Ívars sprettur af skoðun á hversdaglegu umhverfi okkar - hún er þessa heims um leið og hún krefst úrlausna á eigin forsendum.
 

„Samasem“ 2021

Sýningin er gerð með innanhússmálningu: (Kópal 10 NCS S 3060-R60B) sem borin er á tvo gagnstæða fleti með málningarrúllu. Ein umferð er borin á heilan veggflöt sem er 220 x 500 cm.
Á gagnstæðan vegg eru 175 umferðir bornar á flöt á miðjum vegg sem er 20 x 20 cm. Samsvarandi magn af málningu er þannig á báðum flötum. Samasem merki er á miðjum vegg mitt á milli máluðu veggflatanna.
 
Uppbyggingasjóður, Fjallabyggð, Aðalbakarí og kjörbúðin styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.