Frjó - Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 3. - 5. júlí 2020

Frjó menningarhelgi fer fram í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 3. - 5. júlí 2020. Þar koma saman 11 listamenn sem bjóða uppá tónlist, myndlist og spjall. Viðburðirnir verða allir á heimilislegu nótunum og fjöldi gesta takmarkaður. Eru því allir beðnir um að sýna skilning, spritta á sér hendur og koma ekki ef um einhvern slappleika er að ræða. Tekið verður við frjálsum framlögum við innganginn.

Uppbyggingasjóður, Fjallabyggð, Tannlæknar Fjallabyggð, Eyrarrósin, Aðalbakarí, Kjörbúðin og Rammi hf. styðja við menningarstarf í Alþýðuhúsinu.

Frjó 3. - 5. júlí 2020
Menningarhelgi í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Föstudagur 3. júlí kl. 20:00 - 22:30
Tónleikar þar sem fram koma listamennirnir
Plasmabell
rafnar
Framfari
Kraftgalli

 Plasmabell (Bára Kristín) spilar frumsamda abstrakt raftónlist. 
Hún sækir innblástur í tilraunakennda 90´s tónlist eins og trip hop, Techno, down tempo og grunge.
Bára Kristín býr og starfar á Siglufirði. 
https://plasmabell1.bandcamp.com 

 

 rafnar tónskáld sem gaf út sín fyrstu verk í fyrra og hefur verið að tengja saman fjölbreytta heima ólíkra listforma eins og myndlist og videoverk í samhljómi við eigin tónsmíðar. rafnar er með litríkan hljóðheim sem inniheldur allt frá stóru bandi með stúlknakór og óperusöngkonu til einleiks á gítar eða pianó. rafnar mun bæði frumflytja ný verk í Alþýðuhúsinu sem og lög af fyrstu plötunni hans VODA sem kemur út 8. Október 2020.
www.rafnar.org

 

 

 Kraftgalli spilar raftónlist með púlsandi takti og þrykkþéttum bassa, þar sem ýmis furðuhljóð fá að njóta sín og skammlaust gælt við giltí plessjörs! Kraftgalli hefur undanfarin misseri gefið út eitt og annað smælki, en vinnur nú hörðum höndum að koma sinni fyrstu breiðskífu í útgáfu og situr við skriftir söngspilsins eða tónlistarævintýrisins Trítladansinn sem er væntanlegt á næsta ári. Hjá Kraftgalla leynast áhrif frá rokki og róli, hnausþykku fönki, köflum kryddað austurlenskum blæbrigðum og hrynjanda, en hver veit nema orkneyskir trítlar komi við sögu með danskennslu. Aldrei er þó of langt í diskóið!
Kraftgalli hefur gefið út hjá hfn music og SMIT records og hefur komið fram í Belgíu, Þýskalandi og Sierra Leone. Hann hlaut tilnefningu fyrir lag sitt Rússíbana í flokknum raftónlistarlag ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2020.

 

 Framfari er sjálfmenntaður tónlistamaður sem hefur tekið þátt í ýmsum tónlistaverkefnum, samspili og listviðburðum. Á undanförnum árum hefur hann einnig í auknum mæli snúið sér að tónsmíðum og tileinkað sér píanóleik. Framfari samdi tónlistina fyrir heimildarmyndina Af jörðu ertu komin sem frumsýnd var á síðasta ári og hefur haldið fjölda tónleika undanfarið í samstarfi við tónlistamanninn Rafnar. 
Framfari ætlar að spila frumsamda tónlist á Frjó, enn á huldu hverjir munu koma fram ásamt honum.