Sigló Hótel – Benecta mót BF 2019

Blakmótið Sigló Hótel – Benecta mót Blakfélags Fjallabyggðar árið 2019 fer fram í Fjallabyggð um komandi helgi.

Mótið er þekkt undir nafninu Siglómótið og hefur farið fram til fjölda ára en með stofnun Blakfélags Fjallabyggðar (BF) 2016 og styrktarsamningi sem félagið gerði við Sigló Hótel, Genis ehf. og Rauðku ber mótið nafnið Sigló Hótel – Benecta mót BF.

Mótið er eitt af fjölmörgum hraðmótum sem blakfélög halda víðsvegar um landið en mótið sem fram fer nú um helgina er stærsta hraðmót vetrarins en um 63 blaklið mæta til leiks, 42 kvennalið og 21 karlalið og verða spilaðir 161 leikir í íþróttahúsunum bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði. 

Ýmsir viðburðir verða á svæðinu mótshelgina, m.a. tónleikar á Hannes Boy á föstudagskvöldinu, lengri opnun ýmissa staða o.s.frv., en reikna má með að tæplega 500 blakarar verði í Fjallabyggð yfir helgina. 

Leikar hefjast föstudaginn 22. febrúar um kl. 18:00 og spilað er fram eftir kvöldi. Á laugardag verður svo spilað frá kl. 8:00 og áætlað að leikjum ljúki um kl. 18:00. 

Bæjarbúar eru hvattir til að mæta í þróttahúsin og fylgjast með.

Á myndinni má sjá drög að leikjaplaninu